Handbolti

Einar Andri framlengir um þrjú ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Samningarnir handsalaðir.
Samningarnir handsalaðir. mynd/afturelding
Einar Andri Einarsson hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við Aftureldingu.

Einar Andri hefur þjálfað karlalið Aftureldingar með frábærum árangri frá 2014. Auk þess að þjálfa meistaraflokk karla er Einar Andri yfirþjálfari yngri flokka Aftureldingar auk þess sem hann hefur umsjón með handboltaakademíuna í Fjölbrautaskólanum í Mosfellsbæ.

Við erum mjög ánægðir að hafa framlengt samninginn við Einar Andra enda er hann einn albesti þjálfari landsins,“ segir Ásgeir Sveinsson, formaður meistaraflokksráðs Aftureldingar.

Undir stjórn Einars Andra endaði Afturelding, sem var þá nýliði, í 2. sæti Olís-deildarinnar tímabilið 2014-15. Mosfellingar fóru svo alla leið í úrslit þar sem þeir töpuðu 3-0 fyrir Haukum.

Afturelding fór svo aftur í úrslit í fyrra en eins og 2015 reyndust Haukar of sterkir. Mosfellingar komust í 2-1 en Haukar unnu tvo síðustu leikina í einvíginu og tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn.

Afturelding situr núna á toppnum á Olís-deildinni. Liðið tekur á móti ÍBV í kvöld, í fyrsta leik sínum eftir HM-fríið.

Fjórir lykilleikmenn Aftureldingar hafa einnig skrifað undir nýjan samning við félagið til þriggja ára. Þetta eru þeir Elvar Ásgeirsson, Pétur Júníusson, Böðvar Páll Ásgeirsson og Kristinn Elísberg Bjarkason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×