Innlent

Eina konan á ekki vísan stuðning Landssambands sjálfstæðiskvenna

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Áslaug sækist eftir leiðtogasæti í borginni, ein kvenna.
Áslaug sækist eftir leiðtogasæti í borginni, ein kvenna. Vísir/Ernir
Skiptar skoðanir eru meðal kvenna í Sjálfstæðisflokknum um hlutverk kvenfélaga flokksins hvað varðar stuðning við kvenframbjóðendur. „Við eigum að styðja allar konur til þátttöku í stjórnmálum en ekkert endilega að styðja einstakar konur í framboði,“ segir Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, aðspurð um stuðning sambandsins við framboð Áslaugar Friðriksdóttur sem er eina konan sem tekur þátt í leiðtogakjöri flokksins í Reykjavík. 

Vala segir engin jafnréttissjónarmið í því að konur eigi að styðja konu bara af því að þær vilji auka hlut kvenna. „Þótt kona sæki ein fram er það ekki endilega ávísun á að hún fái öll atkvæði kvenna heldur þarf hún að hafa eitthvað fram að færa,“ segir Vala. Hún segist munu kjósa eftir skoðunum og málefnum en ekki eftir kynferði og hefur ekki gert upp við sig hvort hún styðji Áslaugu. 

Ragnheiður Ríkharðsdóttir vil kynjakvóta í prófkjörum flokksins. Fréttablaðið/Vilhelm
Annað hljóð er í formanni Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, sem styður Áslaugu til forystu.

„Auðvitað styðjum við hana, ekki spurning. Hvöt er félag Sjálfstæðiskvenna í Reykjavík og hefur það markmið að styðja kvenframbjóðendur. Það er kominn tími á konu í leiðtogasæti í borginni og Áslaug er frábær kandídat,“ segir Arndís Kristjánsdóttir, formaður Hvatar.

Sjálfstæðiskonur sem blaðið ræddi við sammælast ekki um hlutverk kvenfélaganna. Þá eru skiptar skoðanir um regluverk flokksins um hlut kvenna á framboðslistum.

„Mér finnst prófkjörin vænlegasti kosturinn til að velja fólk á lista en er þeirrar skoðunar að við þurfum að setja þar inn kynjakvóta,“ segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×