Innlent

Ein kæra borist vegna Hagaskóla

viktoría hermannsdóttir skrifar
Ástand hefur verið í skólanum undanfarna mánuði vegna hótana og ógnana ákveðins hóps.
Ástand hefur verið í skólanum undanfarna mánuði vegna hótana og ógnana ákveðins hóps. vísir/Vilhelm
"Að sjálfsögðu gerum við það sem við getum til að tryggja öryggi nemenda í skólanum og teljum það hafa gengið prýðilega. Þegar svona stendur á þurfa önnur verkefni að víkja,“ segir Ómar Örn Magnússon, aðstoðarskólastjóri Hagaskóla.

Eins og Fréttablaðið sagði frá í vikunni hefur mikil hræðsla verið meðal barna í skólanum vegna hóps sem hefur ógnað og hótað nemendum þar um nokkurra mánaða skeið. Í byrjun vikunnar kom svo til ryskinga milli foreldris nemanda og annars nemanda sem hafði ógnað barni hans. Faðirinn mætti í skólann til þess að ræða við meintan geranda á skólatíma og endaði það með ryskingum þeirra á milli en ekki er vitað hversu alvarlegar þær voru.Ómar segist ekki geta tjáð sig um tiltekið atvik og segir það hafa farið í ákveðið ferli.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að ein kæra hafi borist tengd ástandinu í Hagaskóla. Kristján Ólafur Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfestir það. Verið sé að vinna í málinu í samstarfi við skóla- og barnaverndaryfirvöld. "Það er unnið að því að leysa þessi mál og reynt að koma þeim til aðstoðar sem þess þurfa.“

Mörg börn eru óttaslegin

Ómar segir málin sem upp hafa komið ekki einskorðast við skólann sem slíkan, mörg atvikin sem um ræðir eigi sér stað utan skóla en snúi engu að síður að nemendum hans. Margir foreldrar hafa haft samband við skólann í vikunni og lýst yfir áhyggjum sínum vegna ástandsins.

"Við höfum fengið miklar upplýsingar og líka ábendingar um atvik sem eiga að hafa átt sér stað að undanförnu. Við viljum auðvitað geta fylgst með þeim börnum sem við vitum að eru óttaslegin og þurfa sérstakt eftirlit. Mörg börn eru hrædd og óttaslegin en það er samt þannig að flest börn hafa ekki lent í neinu,“ segir Ómar.

"Það sem setti þetta mál á þann stað að okkur fannst við þurfa að upplýsa foreldra um stöðuna var að við fengum núna um áramótin upplýsingar um börn sem vildu síður taka þátt í tómstundastarfi í hverfinu. Þá af ótta við að lenda í aðstæðum eða hitta einhvern af þessum gerendum á förnum vegi, þar sem þeir hafa vanið komur sínar á staði þar sem þeir vita að eru börn fyrir,“ segir Ómar og tekur fram að unnið sé að því að leysa málið.


Tengdar fréttir

Nemendum hefur verið hótað og ógnað

Hópur ungmenna hefur gert nemendum við Hagaskóla lífið leitt með ógnunum og hótunum. Til ryskinga kom í gær milli foreldris og eins úr hópnum. Lögregla segir málið vera til rannsóknar og verið sé að leita lausna á vandanum.

Úrræði fyrir nemendur í vanda

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði lögðu fram tillögu á fundi ráðsins í gær um sérúrræði vegna vímuefnavanda grunnskólanemenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×