Innlent

Ein flatkaka á verði fimm pakka

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Það getur komið mismikið við pyngju fólks að fá sér í gogginn eftir því hvar á landinu er verslað. Ferðamenn virðast þó ekki kippa sér upp við ofurháa verðlagningu á mat á veitinga- og kaffihúsum í kringum helstu ferðamannastaði landsins.

Ferðamannaiðnaðurinn hefur varið ört vaxandi síðustu ár og er nú orðin stærsta útflutningsgrein landsins. Þessi aukni ferðamannastraumur endurspeglast til að mynda í hárri verðlagningu, en ferðamenn eru oft tilbúnir að greiða hærra verð fyrir mat og ýmiskonar varning heldur en gengur og gerist.

Frétt sem birtist á Vísi í vikunni hefur farið hátt, en þar vekur Logi Einarsson, bæjarfulltrúi á Akureyri athygli því að hann hafi keypt sér súkkulaðikökusneið á veitingastað á Mývatni og þurft að greiða fyrir tæplega þrettán hundruð krónur. Hann hafði orð á þessu við starfsstúlkuna sem sagði að þangað kæmu aldrei Íslendingar. Í kjöl­farið hafa spunn­ist umræður um hvort Íslend­ing­ar séu farn­ir að okra um of á ferðamönn­um. Fjölmargir tjáðu sig í athugasemdakerfi fréttarinnar og höfðu svipaða sögu að segja, þá bárust fréttastofu sambærileg dæmi um verðlagningu á matsölustöðum og gistihúsum landsins. Til dæmis kostaði lítill snakkpoki 600 krónur, diskur af kjötsúpu 2.500 krónur, soðinn fiskur með kartöflum og smjöri 3600 krónur og lítil maltdós 550 krónur.

Sagan um tertusneiðina er síður en svo einsdæmi. Á kaffihúsi einu niður í bæ kostar heimabakað flatbrauð með hangikjöti 1290 krónur. Til að setja hlutina í samhengi er fyrir sömu upphæð hægt að kaupa fimm pakka af flatkökum og hangikjötspakka í matvöruverslun.

En eru ferðamennirnir meðvitaðir um þetta? Stöð 2 tók nokkra þeirra tali í miðbæ Reykjavíkur í gær og svör þeirra má sjá í myndbandinu hér að ofan. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×