Viðskipti innlent

Eimskip efla þjónustu kæliflutninga í Hollandi

Hafliði Helgason skrifar
Ánægðir með kaup Eimskips á Extraco. Frá vinstri Dick Vlasblom, Dick de Weerdt, Arie Verrijp, Edwin Zwaal, Bragi Þór Marinósson og Óskar Friðriksson.
Ánægðir með kaup Eimskips á Extraco. Frá vinstri Dick Vlasblom, Dick de Weerdt, Arie Verrijp, Edwin Zwaal, Bragi Þór Marinósson og Óskar Friðriksson. Mynd/Eimskip
Eimskip hefur keypt 90 prósenta hlut í flutningsmiðlunarfyrirtækinu Extraco Internationale Expeditie B.V. í Hollandi. Þetta er fyrsta fjárfesting af nokkrum sem Eimskip áformar til eflingar á kjarnastarfsemi sinni á komandi mánuðum. Félagið veltir um tveimur og hálfum milljarði króna.

Hjá Extraco starfa 19 manns og mun stór hluti stjórnendateymis fyrirtækisins halda áfram störfum og eiga 10 prósenta eignarhlut í félaginu. Helstu þjónustuþættir þess eru þjónusta við innflytjendur á frysti- og kælivöru til Hollands, auk þess að sjá um innflutningspappíra, birgðahald, tollafgreiðslu og dreifingu á frystum og kældum afurðum í Evrópu.

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, segir kaupin falla vel að þeirri starfsemi sem fyrir er hjá Eimskip í Rotterdam og bætast við þann klasa fyrirtækja sem eru í þjónustu Eimskips í Rotterdam. „Við erum með þessu að bæta við hlekkjum í okkar þjónustukeðju og við sjáum fram á samlegð með þessum kaupum. Þetta eru fyrstu kaupin af nokkrum sem við höfum boðað til að styrkja starfsemi okkar,“ segir Gylfi.

Gylfi segir að samlegðin liggi meðal annars í því að starfsmenn Extraco muni færast í höfuðstöðvar félagsins og nýta stoðstarfsemi Eimskips. „Þessir aðilar eru í flutningsmiðlun og við komum með flutningahlutann í samstarfið. Með þessu eflum við þjónustu okkar í kælistýrðum flutningum.“ – hh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×