Innlent

Eimskip breytir siglingakerfinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gámasvæði Eimskips í Reykjavík.
Gámasvæði Eimskips í Reykjavík. vísir/gva
Eimskip mun um miðjan október gera breytingar á siglingakerfi félagsins þar sem gráa leiðin mun fá aukið hlutverk.

Gráa leiðin hefur frá febrúar 2014 sinnt þjónustu á milli Færeyja og Skotlands en fær nú mun umfangsmeira hlutverk en áður þar sem öðru 500 gámaeininga leiguskipi verður bætt við línuna. Gráa leiðin mun áfram sigla á milli Færeyja og Scrabster í Skotlandi en við bætast viðkomur í Árósum í Danmörku, Halmstad í Svíþjóð og Swinoujscie í Póllandi.

Í tilkynningu frá Eimskip segir að mikil aukning hafi orðið í flutningum til Íslands á undanförnum misserum og gert er ráð fyrir að svo verði áfram. Innflutningsbann í Rússlandi hefur sett mark sitt á flæði vöruflutninga á Norður-Atlantshafi. Með breytingunni á siglingakerfinu er verið að aðlaga það að síbreytilegum þörfum markaðarins. Afkastageta áætlunarskipa félagsins eykst um 6% með breyttu siglingakerfi og bætt er við nýrri viðkomuhöfn í Póllandi. Sveigjanleiki kerfisins eykst til muna og léttir það á kerfinu yfir vetrarmánuðina sem leiðir til aukins áreiðanleika.

Skipin tvö sem þjóna gráu leiðinni munu bera nöfnin Blikur og Lómur. Þessi nöfn eru samofin sögu Faroe Ship, dótturfyrirtækis Eimskips í Færeyjum, en skip með þessum nöfnum voru í rekstri færeyska félagins um árabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×