Viðskipti innlent

Eignir lífeyrissjóðanna ríflega tvöfaldast

Jón Hákon skrifar
Sterk staða Regína Bjarnadóttir er forstöðumaður Greiningar. Greining segir stöðu lífeyrissjóðanna vera sterka.
Sterk staða Regína Bjarnadóttir er forstöðumaður Greiningar. Greining segir stöðu lífeyrissjóðanna vera sterka. fréttablaðið/arnþór
Eignir lífeyrissjóðanna hafa ríflega tvöfaldast frá aldamótum og námu um 3.000 milljörðum króna síðastliðin áramót. Það er ríflega ein og hálf landsframleiðsla. Þetta kom fram í Markaðspunktum Arion banka sem komu út í gær.

Greining Arion banka telur að staða íslenskra lífeyrissjóða sé á heildina litið nokkuð sterk. Hrein raunávöxtun þeirra hafi farið batnandi síðustu ár eftir að hafa verið innan við 1% á árunum 2007 og 2009 og neikvæð um 22% árið 2008. Á árunum 2010-2011 var ávöxtunin komin yfir 2% og upp í 7,3% árið 2012.

Á árinu 2014 er áætlað að raunávöxtunin hafi verið 7,2%. Slík ávöxtun myndi tvöfalda eignirnar á tíu árum. Engu að síður eru lífeyrissjóðir skyldaðir til að miða við 3,5% ávöxtunarkröfu við núvirðingu á framtíðarskuldbindingum. Greining segir meðalraunávöxtun síðastliðinna 13 ára vera lítillega undir því, eða 3,2%.

Greining segir mikilvægt að hafa í huga að markmið lífeyrissjóða sé ekki að stækka eignasafnið, ávöxtunin sé mun mikilvægari. „Þó er mikilvægt að lífeyrissjóðirnir auki við eignir um þessar mundir því aldurssamsetning þjóðarinnar mun breytast á næstu áratugum þar sem þjóðin er að eldast. Þá mun hlutfallið milli eftirlaunaþega og launþega hækka sem þýðir að meira fer út úr lífeyrissjóðum heldur en inn í þá, miðað við stöðuna í dag,“ segir Greining.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×