Körfubolti

Eignast Egilsstaðir lið í efstu deild í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Heimasíða Hattar
Höttur frá Egilsstöðum getur tryggt sér sæti í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld.

Hattarmenn heimsækja þá Hamarsmenn í Hveragerði í 1. deild karla og með sigri er liðið búið að tryggja sér sigur í deildinni og þar með sæti í efstu deild.

Höttur er með 30 stig eða sex stigum meira en FSu sem er í öðru sæti. Hamar er síðan í þriðja sæti með 22 stig (á leiki inni) og Skagamenn eru síðan í fjórða sætinu með 20 stig (eiga tvo leiki inni).

Vinni Höttur leikinn í kvöld komast þeir í 32 stig og ekkert hinna liðanna getur þá náð í meira en 30 stig. Höttur fær þrjá leiki til þess að tryggja sér úrvalsdeildarsætið, í kvöld á móti Hamar og svo á móti FSu og ÍA í síðustu tveimur leikjum sínum.

Höttur hefur einu sinni spilað í úrvalsdeild karla en liðið vann 3 af 22 leikjum sínum veturinn 2005 til 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×