Erlent

Eiginmaðurinn reyndi ítrekað að kyssa húshjálpina

Samúel Karl Ólason skrifar
Konan reyndi ítrekað að komast undan atlotum mannsins.
Konan reyndi ítrekað að komast undan atlotum mannsins.
Sádi-arabísk kona gæti átt yfir höfði sér fangelsisdóm eftir að hún birti myndband af eiginmanni sínum á Youtube. Myndbandið er af manninum þar sem hann virðist beita húshjálp þeirra hjóna kynferðislegu ofbeldi. Á myndbandinu má sjá konuna ítrekað reyna að komast undan atlotum mannsins.

Konan setti myndbandið á Youtube, með yfirskriftinni: Hans minnsta refsing er að vera smánaður.

Samkvæmt Telegraph segja lögfræðingar þó að konan gæti átt von á hárri sekt fyrir meiðyrði eða farið í fangelsi í eitt ár. Kassamerkið #SaudiWomanCatchesHusbandCheating hefur notið mikilla vinsælda á Twitter frá því að myndbandið var birt.

Langflestir þeirra sem notað hafa merkið, lýstu yfir stuðningi við eiginkonuna.

Stjórnvöld Sádi-Arabíu eru gífurlega íhaldssöm og hafa konur átt erfitt með að öðlast aukin réttindi þar. Þær mega sem dæmi ekki keyra og verða að sækja um leyfi frá karlkyns fjölskyldumeðlimum til að ferðast eða vinna.

Bág staða vinnukvenna

Þá hefur myndbandið vakið athygli á bágri stöðu kvenna sem vinna við húshjálp, sem iðulega eru innflytjendur með nánast engin réttindi í Sádi-Arabíu.

Mál indverskrar farandverkakonu í Sádi-Arabíu hefur til dæmis vakið mikla athygli. Hún vann sem vinnukona og reyndi að flýja undan áreiti vinnuveitenda síns. Hann er sagður hafa refsað henni með því að höggva af henni aðra höndina.

Yfirvöld í Indlandi hafa farið fram á svör frá Sádi-Arabíu en málið hefur valdið mikilli reiði. Í september þurfti erindreki Sádi-Arabíu að yfirgefa Indland eftir að hann var sakaður um að nauðga tveimur vinnukonum frá Nepal ítrekað og misþyrma þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×