Fótbolti

Eiginkona Totti: Spalletti er smámenni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ilary Blasi og Francesco Totti gengu í hjónaband árið 2005.
Ilary Blasi og Francesco Totti gengu í hjónaband árið 2005. vísir/getty
Ilary Blasi, eiginkona Francesco Totti, telur að eiginmaður sinn hafi fengið ósanngjarna meðferð hjá Luciano Spalletti, knattspyrnustjóra Roma, á síðasta tímabili.

Totti var sendur heim af æfingu Roma á síðasta tímabili vegna ummæla sem hann lét falla í sjónvarpsviðtali. Eiginkonan var lítt hrifin af því.

„Eina sem hann sagði í þessu viðtali, sem varð svo umdeilt, var að hann vildi að sér yrði sýnd virðing. Hann átti fullan rétt á því enda sýndi Roma honum enga virðingu á þessum tíma. Francesco er ekki umdeildur maður, hann lætur verkin tala inni á vellinum,“ sagði Blasi sem hefur verið gift Totti í 11 ár.

Spalletti kom ekki nógu vel fram við Totti að mati eiginkonu leikmannsins.vísir/getty
„Hann var sendur í burtu frá sínu eigin heimili. Ég veit ekki mikið um fótbolta en þetta var súrreallískt og eins og í vísindaskáldskap. Ég trúði þessu ekki, svona gerir þú ekki.“

Totti er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Roma enda bæði leikja- og markahæsti leikmaður í sögu félagsins. Stuðningsmennirnir stóðu þétt við bakið á honum á þessum tíma.

„Stuðningsmennirnir sneru ekki baki við honum. Spalletti hegðaði sér eins og smámenni, punktur. Það er sannleikurinn. Hann sagði fáránlega hluti,“ sagði Blasi sem er þekkt sjónvarpskona á Ítalíu.

Totti, sem verður fertugur á morgun, hefur skorað tvö mörk í fjórum deildarleikjum á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×