Fótbolti

Eigandi nýs félags Eiðs er Bollywood-stjarna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roshan heilsar áhorfendum á leik Pune City.
Roshan heilsar áhorfendum á leik Pune City. Vísir/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen gekk í morgun í raðir indverska liðsins FC Pune City og mun því spila í indversku úrvalsdeildinni næstu mánuðina hið minnsta.

Eiður Smári er 37 ára og á að baki langan feril en Pune City er hans sautjánda lið og Indland tíunda landið sem hann hefur spilað í.

Sjá einnig: Eiður Smári í indversku ofurdeildina

Pune City var stofnað fyrir tveimur árum síðan og er að hluta í eigu eins þekktasta Bollywood-leikara Indlands, Hrithik Roshan.

Pune City leikur í Indian Super League sem var sett á laggirnar árið 2013. Deildin er ekki hluti af hefðbundinni deildarkeppni og stendur tímabilið yfir í aðeins rúma tvo mánuði, frá október til desember ár hvert.

Knattspyrnan hefur átt undir högg að sækja í Indlandi hvað vinsældir varðar en krikket er gríðarlega vinsælt þar í landi. ISL-deildin sækir fyrirmynd sína til indversku Twenty20 krikketdeildarinnar sem nýtur gríðarlegra vinsælda.

Pune City er þjálfað af Spánverjanum Antonio Lopez Habas en meðal samherja Eiðs Smára hjá liðinu er Senegalinn André Bikey, fyrrum leikmanns Reading.

Roshan er ekki eina kvikmyndastjarnan sem kemur að ISL-deildinni en þrjú önnur lið eru í eigu Bollywood-stjarna. Roshan er 42 ára margverðlaunaður kvikmyndaleikari sem hefur einnig starfað í tískuiðnaðinum, sem þáttastjórnandi í sjónvarpi og leikari á sviði.


Tengdar fréttir

Eiður Smári í indversku ofurdeildina

Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins, hefur samið við indverska liðið Pune City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×