Enski boltinn

Eigandi Leeds samur við sig | Rak þjálfarann eftir 32 daga í starfi

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Cellino eigandi Leeds United
Cellino eigandi Leeds United vísir/getty
Ítalski eigandi enska knattspyrnuliðsins Leeds United Massimo Cellino rak í gær þjálfarann Darko Milanic eftir aðeins 32 daga og sex leiki við stjórnvölinn.

Milanic er annar þjálfarinn sem Cellino rekur á tímabilinu því áður hafði hann vikið David Hockaday úr starfinu en hann fékk einnig sex leiki til að sanna getu sína fyrir hinum hvatvísa eiganda Leeds United.

Neil Redfearn sem stýrði liðinu áður en Milanic tók við því hefur verið ráðinn nýr þjálfari en hann hefur stýrt unglingastarfi félagsins með góðum árangri auk þess sem hann náði í 10 stig í fjórum leikjum sem þjálfari liðsins eftir að Hockaday var rekinn.

Leeds United tapaði 2-1 fyrir Wolves í gær eftir að hafa verið 1-0 yfir í hálfleik og var Cellino allt annað en sáttur.

„Ég vil biðja stuðningamenn liðsins afsökunar, þið eigið betri úrslit skilið,“ sagði Cellino eftir að hann rak Slóvenann Milanic sem Cellino sagði neikvæðann og með hugarfar tapara.

Cellino rak 36 þjálfara á þeim 22 árum sem hann átti og rak ítalska félagið Cagliari og hann heldur uppteknum hætti hjá Leeds en hann hefur nú rekið Brian McDermott í tvígang, Hockaday og Milanic á tíu mánuðum.

Milanic vann engan af sex leikjum sínum sem þjálfari Leeds United og er fyrsti þjálfarinn eða knattspyrnustjóri félagsins frá upphafi sem vinnur engan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×