Lífið

Eigandi La Luna: „Auðvitað hefði ég átt að halda kjafti“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Þorleifur Jónsson, eða Tolli.
Þorleifur Jónsson, eða Tolli. Vísir/Anton
„Ég vissi strax að þetta var persónulegt, þetta hafði ekki með fyrirtækið mitt að gera. Auðvitað hefði ég átt að halda kjafti. Að sjálfsögðu, það er auðvelt að vera vitur eftir á,“ segir Þorleifur Jónsson, eigandi pizzustaðarins La Luna, í samtali við Vísi.

Samskipti Þorleifs, sem er alltaf kallaður Tolli, við ósáttan viðskiptavin hafa vakið mikla athygli síðustu daga. Þar sagðist hann meðal annars ætla að líta við á vinnustað viðskiptavinarins og koma því í kring að hann verði rekinn.

Sjá einnig: Eigandi La Luna hellir sér yfir ósáttan viðskiptavin og hótar að láta reka hann

Viðskiptavinurinn, Heiðar Aðaldal Jónsson, ritaði kvörtunina á Facebook-síðu La Luna á fimmtudag en þar lýsir hann reynslu sinni af þjónustunni á staðnum.

Tolli segir að samskiptaörðugleika sína við Heiðar megi rekja til samskipta á athugasemdakerfi Vísis. Hann hafi þar, fyrir um ári síðan, ávítt Heiðar fyrir að tala niður til manns vegna rangrar stafsetningar. Hann telur að Heiðar hafi haft horn í síðu sér eftir það. Slæm gagnrýni Heiðars hafi birst á Facebook síðu staðarins nokkrum dögum eftir umfjöllun um La Luna á DV.

„Þetta var persónulegt, þetta var ekki fyrirtækið, þetta var persónulegt á mig svo ég svara persónulega. Þeir sem þekkja mig vita að ég er skaphundur og mjög réttlátur maður og heiðarlegur en svolítið hvatvís. Ég er kannski með aðeins of stóran skammt af hvatvísi. Ég er ekki slæmur maður. Ég er búinn að vera í viðskiptum síðan 1994 og ég er bara svona gerður. Síðan reyni ég alltaf að bæta mig en það gengur illa,“ segir Tolli.

„Svo er hann núna að hvetja fólk til að gefa staðnum slæma einkunn, fólk sem er ekki einu sinni að versla hérna. Ég vissi strax að þetta var persónulegt, þetta hafði ekki með fyrirtækið mitt að gera. Auðvitað hefði ég átt að halda kjafti. Að sjálfsögðu, það er auðvelt að vera vitur eftir á.“

 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×