Viðskipti innlent

Eigandi gjaldþrota húsgagnaverslunar ákærður fyrir fjárdrátt

ingvar haraldsson skrifar
Húsgagnaverslunin var lýst gjaldþrota árið 2013 en ekkert fékkst upp í lýstar kröfur samkvæmt því sem fram kemur í ákærunni.
Húsgagnaverslunin var lýst gjaldþrota árið 2013 en ekkert fékkst upp í lýstar kröfur samkvæmt því sem fram kemur í ákærunni. vísir/getty
Sérstakur saksóknari hefur ákært karlmann fyrir að hafa dregið að tæplega 9,5 milljónir króna á árunum 2011 til 2013 sem eigandi húsgagnaverslunar á höfuðborgarsvæðinu.

Verslunin var úrskurðuð gjaldþrota á árinu 2013 en ekkert fékkst upp í lýstar kröfur sem námu 25,6 milljónum króna samkvæmt því sem fram kemur í ákærunni.

Hinn ákærði á að hafa millifært eða tekið út fé sem alls nam 13,2 milljónum króna á ákærutímabilinu. Hins vegar hafi hann á móti talið fram launatekjur sem numið hafi 3,7 milljónir króna og því er sú upphæð dregin frá heildar úttektar fjárhæðinni. Því er maðurinn einungis ákærður fyrir fjárdrátt upp á 9,5 milljónir króna.

Þá er hinum ákærða einnig gefið að sök að hafa brotið gegn bókhaldslögum og lögum um ársreikninga með því að hafa ekki fært bókhald um starfsemi félagsins sem og vanrækt að skila ársreikningum á árunum 2011 og 2012.

Þingfesting í málinu fór fram fyrir skömmu en aðalmeðferð verður haldin næsta haust. Hinn ákærði neitar sök og segir að millifærslurnar eigi sér eðlilegar skýringar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×