Enski boltinn

Eigandi Fulham og Jacksonville Jaguars vill kaupa Wembley

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Wembley er heimavöllur enska landsliðsins og jafnframt höfuðstöðvar enska knattspyrnusambandsins
Wembley er heimavöllur enska landsliðsins og jafnframt höfuðstöðvar enska knattspyrnusambandsins vísir/getty
Eigandi enska 1. deildar félagsins Fulham hefur gert enska knattspyrnusambandinu kauptilboð í Wembley leikvanginn.

Shahid Khan á bæði Fulham og bandaríska NFL liðið Jacksonville Jaguars og á hann að hafa boðið 800 milljónir punda í leikvanginn.

„Með einkaeigu Wembley getur enska knattspyrnusambandið einbeitt sér að sínu aðal hlutverki, að þróa leikmenn,“ sagði Khan við BBC.

Heimildir Sky Sports segja að með sölunni muni enska landsliðið ekki geta spilað alla sína leiki á leikvangnum, þá sérstaklega á haustin. Þrátt fyrir það mun enska knattspyrnusambandið áfram líta á Wembley sem heimili enska landsliðsins.

Á síðustu árum hafa leikir í NFL deildinni verið spilaðir í Lundúnum og eru forráðamenn deildarinnar ánægðir með mögulegu kaupin.

„Kaupin eru tákn um skuldbindingu þeirra við Bretland og sýn á áframahaldandi þróun í íþróttinni,“ sagði talsmaður NFL deildarinnar Mark Waller.

NFL deildin hefur nú þegar gert samning við Tottenham um að tveir leikir á hverju tímabili verði spilaðir á nýjum leikvangi liðsins næstu tíu ár.

Wembley var endurgerður árið 2007 og kostaði byggingin 757 milljónir punda. Í janúar á þessu ári sagði enska knattspyrnusambandið að það myndi ljúka afborgunum af byggingunni árið 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×