Skoðun

Eiga fleiri rétt á sanngirnisbótum?

Ívar Þór Jóhannsson skrifar

Reglur um bótarétt tjónþola hérlendis eiga sér langa sögu og eru fjölbreytilegar. Sumar reglurnar eru rótgrónar og þess eðlis að oft hefur á þær reynt í framkvæmd. Má til dæmis ætla að flestum sé kunnugt um bótarétt fyrir líkamstjón sem verður í umferðinni, enda hafa þær reglur verið rækilega auglýstar í sjónvarpi og útvarpi á undanförnum misserum. Verður að telja það heppilegt að tjónþolar séu vel upplýstir um rétt sinn til bóta fyrir tjón.

Aðrar reglur eru nýlega settar og lítil eða engin framkvæmd liggur fyrir um hvernig túlka beri reglurnar. Þann 2. júní 2010 tóku gildi hér á landi lög nr. 47/2010 um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007 (til einföldunar verða lögin hér eftir kölluð lög um sanngirnisbætur). Bættist þá í regluflóruna réttur til nýrrar tegundar bóta, svokallaðra sanngirnisbóta. Viðbótin vakti fræðilegar vangaveltur áhugamanna um bótarétt á Íslandi, eins og höfundar þessa pistils, en einnig íslensks almennings enda um ákveðið réttlætismál að ræða auk þess sem bæturnar greiðast úr ríkissjóði. Til samhengis má nefna að í ágúst 2013 var búið samþykkja kröfur fyrir rúmlega 1,4 milljarða króna í sanngirnisbætur.

Með lagasetningunni var tekin ákvörðun um að greiða skyldi úr ríkissjóði bætur til þeirra sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á vist- og meðferðarheimilum fyrir börn sem rannsökuð höfðu verið af sérstakri nefnd sem komið var á fót árið 2007. Nefndin rannsakaði alls níu heimili og skilaði skýrslum um rannsóknarstörfin þar sem fjallað var um heimilin.

Eiga fleiri rétt á sanngirnisbótum?

Framangreind lög um sanngirnisbætur kveða á um rétt ákveðinna aðila til bóta og nú hefur í fyrsta skipti reynt á það fyrir dómstólum nákvæmlega hverjir eiga rétt til bótanna. Þann 23. september 2014 sl. féll í Héraðsdómi Reykjavíkur dómur í máli ungrar konu sem hafði verið vistuð á einu heimilanna sem Vistheimilanefnd rannsakaði og sætt þar illri meðferð og ofbeldi. Var dómurinn fjölskipaður og tóku sæti sérfróðir meðdómendur.

Íslensk stjórnvöld höfðu fyrir dómsmálið synjað henni um bætur samkvæmt lögunum, m.a. undir þeim formerkjum að sanngirnisbætur megi aðeins greiða vegna atvika sem urðu á því tímabili sem Vistheimilanefnd rannsakaði. Vistheimilanefnd markaði sér þá stefnu að rannsaka ekkert sem gerst hafði á árinu 1992 eða síðar á heimilinu sem unga konan var vistuð á. Atvikin sem varða ungu konuna urðu m.a. eftir það tímabil sem nefndin kaus að beina rannsókn sinni að.

Í dómsmálinu var því haldið fram af hálfu ungu konunnar að engin lagaheimild væri fyrir þessari túlkun, enda gerðu lögin einungis ráð fyrir þremur skilyrðum fyrir rétti umsækjanda til sanngirnisbóta, þ.e. í fyrsta lagi að umsækjandi hefði orðið fyrir ofbeldi eða illri meðferð í skilningi laganna, í öðru lagi að ofbeldið eða illa meðferðin hafi orðið á heimili sem rannsakað var af Vistheimilanefnd og í þriðja lagi að viðkomandi hefði hlotið varanlegan skaða af háttseminni.

Í stuttu máli var fallist á kröfur ungu konunnar í dómsmálinu og umræddar stjórnvaldsákvarðanir felldar úr gildi. Kom fram í dóminum að tímamörk þau sem Vistheimilanefnd kaus að takmarka rannsókn sína við væru ekki lögbundin og því hefði stjórnvöldum í raun verið heimilt að fjalla um atvik sem áttu sér stað utan þeirra tímamarka.

Íslenska ríkið hefur nú áfrýjað málinu til Hæstaréttar Íslands og bíður málið úrlausnar þar.

Þeir sem fengið hafa synjun skoði réttarstöðu sína

Ef niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur verður staðfest af Hæstarétti Íslands, kunna mun fleiri að eiga rétt til sanngirnisbóta en stjórnvöld hafa lagt upp með, enda nær bótarétturinn þá að líkindum til einstaklinga sem hafa orðið fyrir varanlegum skaða vegna illrar meðferðar eða ofbeldis á ákveðnum vistheimilum ríkisins, óháð því hvenær ofbeldið eða illa meðferðin fór fram.

Það er mikilvægt fyrir þá aðila sem synjað hefur verið um bætur á svipuðum forsendum og ungu konunni í dómsmálinu að fylgjast grannt með framvindu málsins sem bíður eins og áður segir úrslausnar Hæstaréttar Íslands.

Þess skal getið að höfundur þessarar greinar er lögmaður ungu konunnar og flutti umrætt dómsmál fyrir hennar hönd.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×