Enski boltinn

Eiður Smári: Stoltur að vera fyrirliði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen heldur áfram að hafa mikil áhrif á spilamennsku Bolton í ensku B-deildinni, en hann skoraði fyrsta markið í 3-1 sigri gegn Fulham í gærkvöldi.

Eiður var einnig á skotskónum um daginn þegar hann skoraði úr víti gegn Liverpool í leik sem úrvalsdeildarliðið vann með marki í uppbótartíma.

„Þetta hafa verið erfiðar vikur þar sem bikarleikirnir gegn Liverpool rændu okkur mikilli orku. Við viljum samt ekki nota það sem afsökun. Við vitum vel að það sem við sýndum gegn Derby var ekki nógu gott,“ sagði Eiður Smári við heimasíðu Bolton eftir leikinn í gær, en Bolton tapaði síðasta leik gegn Derby, 4-1.

„Við töluðum um það í vikunni og ætluðum okkur að koma til baka. Mér fannst við spila virkilega vel þegar við komumst í gang og sýndum mikinn karakter að koma til baka. Allir samherjar mínir voru frábærir og það er hægt að velja tíu manns sem besta leikmann leiksins.“

Bolton hefur verið í því að lenda undir í leikjum sínum að undanförnu en að þessu sinni tókst liðinu að vinna.

„Við verðum að átta okkur á því að allt getur gerst í fótboltaleik. Þetta er í þriðja sinn á skömmum tíma sem við lendum undir. Við lentum undir á móti Úlfunum en náðum í jafntefli, gerðum það aftur gegn Derby og komum ekki til baka en gerðum það síðan í kvöld eftir að lenda undir,“ sagði Eiður Smári.

„Við vorum virkilega góðir síðustu 15 mínútur fyrri hálfleiks og við vorum staðráðnir í að spila jafnvel í byrjun seinni hálfleiks. Mér fannst við góðir og vorum sterkir í vörninni á meðan við pressuðum þá stíft.“

Sem fyrr segir bar Eiður Smári fyrirliðabandið í leiknum í gær og hann viðurkennir að það hafi fyllt hann stolti. Mestu máli skiptir þó að vinna.

„Ég er stoltur. Þetta var sérstök stund. Það er sérstök tilfinning þegar maður ber fyrirliðabandið. Það er samt bara frábært að hafa unnið leikinn. Það er aðalatriðið. Að fara heim með sigurtilfinningu er það sem fótbolti snýst um. Það er besta tilfinning heims,“ sagði Eiður Smári.

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Eiður Smári skoraði fyrir Bolton í kvöld

Eiður Smári Guðjohnsen skoraði fyrsta mark Bolton í kvöld í 3-1 sigri á Fulham í ensku b-deildinni í fótbolta. Eiður Smári er nú búinn að finna skotskóna og er heldur betur að stimpla sig inn hjá stuðningsmönnum Bolton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×