Fótbolti

Eiður Smári of dýr fyrir eitt sigursælasta lið Indónesíu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen er án liðs.
Eiður Smári Guðjohnsen er án liðs. vísir/getty
Persija Jakarta, einu elsta og sigursælasta liði indónesísku úrvalsdeildarinnar í fótbolta, var boðið að semja við Eið Smára Guðjohsen og Senegalann El Hadji Diouf, að því fram kemur í frétt knattspyrnuvefsins Goal.com.

Persija Jakarta, sem er frá samnefndri höfuðborg Indónesíu, er að byggja upp leikmannahóp fyrir átökin í úrvalsdeildinni á næsta ári, en það er nú þegar búið að semja aftur við sjö leikmenn sem spiluðu með því í ár.

Það þarf nú að finna 19 leikmenn til að spila með liðinu áður en næsta leiktíð hefst, en liðin þurfa að skila inn lista með 26 manna leikmannahópi.

Fram kemur í frétt Goal.com að stjórnarmenn Persija fái boð frá umboðsmönnum um að semja við erlenda leikmenn. Einn þeirra, Om Luc Junior, bauð liðinu Eið Smára Guðjohsen, markahæsta leikmann íslenska landsliðsins frá upphafi, og El Hadji Diouf.

Asher Siregar, varaforseti félagsins, segist enn vera að hugsa málið. „Þeir kosta of mikið,“ segir hann.

Hann útskýrir svo að samningur Eiðs Smára myndi kosta liðið 20 milljónir króna en Diouf fengi tíu milljónir króna fyrir að spila með liðinu á næstu leiktíð.

El Hadji Diouf er þó sagður vera á leið til malasíska félagsins Sabah FA, en Eiður Smári hefur æft með enska B-deildarliðinu Bolton undanfarna daga.

Eiður Smári var síðast á mála hjá belgíska stórliðinu Club Brugge, en hann hefur verið án liðs síðan í vor þegar tímabilinu í Belgíu lauk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×