Fótbolti

Eiður Smári: Stoltur að vera fulltrúi þjóðarinnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen horfir í augu Heimis Hallgrímssonar á blaðamannafundinum í dag.
Eiður Smári Guðjohnsen horfir í augu Heimis Hallgrímssonar á blaðamannafundinum í dag. vísir/vilhelm
Tveir dagar eru þar til strákarnir okkar mæta Englandi í 16 liða úrslitum EM 2016 í Nice. Þetta verður fyrsti mótsleikur liðanna í sögunni en þau hafa aðeins mæst tvisvar sinnum áður í vináttuleikjum.

Íslenska þjóðin hefur beðið lengi eftir því að sjá Ísland spila við stjörnunar úr ensku úrvalsdeildinni sem er eitt allra vinsælasta sjónvarpsefnið á Íslandi.

„Það er sérstakt að spila við England því enskur fótbolti hefur haft mikil áhrif á íslenskan fótbolta. Allir eiga sitt lið í enska boltanum og tengslin eru mikil við England. Spennan er samt meiri vegna þess að við erum komnir í 16 liða úrslit en ekki út af því hver mótherinn er,“ sagði Eiður Smári á blaðamannafundinum í dag.

Þessi markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi hefur afrekað margt á sínum ferli. Hann varð tvisvar sinnum Englandsmeistari með Chelsea og Spánar- og Evrópumeistari með Barcelona. En hefur þessi dvöl hans með Íslandi meiri þýðingu fyrir hann?

„Það er erfitt að segja. Það er alltaf sérstakt að vinna leiki fyrir Ísland. Við gerðum það svona við og við í gamla daga. Það var alltaf sérstakara en að vinna leiki með félagsliði,“ sagði Eiður Smári.

„Það er erfitt að útskýra þetta eða setja í samhengi ef maður ber þetta saman við að vinna stóra titla. Þetta er svipuð tilfinning. Ég er stoltur af því að vera fulltrúi þjóðarinnar. Það gefur mér enn meira,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×