Fótbolti

Eiður Smári: Hazard er besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Eiður Smári lék í sex ár með Chelsea og varð tvisvar sinnum Englandsmeistari með liðinu.
Eiður Smári lék í sex ár með Chelsea og varð tvisvar sinnum Englandsmeistari með liðinu. vísir/getty
Eiður Smári Guðjohnsen verður væntanlega töluvert í sviðsljósinu í tengslum við einvígi Barcelona og Chelsea í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Þessi tvö fyrrum félög Eiðs Smára mætast á þriðjudag en Eiður þekkir vitanlega vel til á báðum stöðum. Hann var í viðtali við Sport360 þar sem hann ræddi meðal annars um einvígið.

,,Það vekur upp margar minningar. Ég myndi ekki segja að það væri rígur á milli félaganna en þau hafa mæst nokkuð oft á undanförnum árum og það hafa alltaf verið spennandi einvígi. Ég var svo heppinn að skora bæði fyrir Chelsea gegn Barcelona og fyrir Barcelona gegn Chelsea.”

,,Ég á erfitt með að spá fyrir um þetta einvígi. Chelsea hafa auðvitað verið frekar óstöðugir upp á síðkastið en þó Barcelona séu í þægilegri stöðu í spænsku deildinni tel ég þetta ekki vera besta lið Barcelona frá upphafi,” segir Eiður Smári.

Skærasta stjarna Chelsea, Eden Hazard, hefur verið orðaður við spænsku stórliðin Real Madrid og Barcelona en þessi belgíski kantmaður er í miklum metum hjá Eiði Smára. 

,,Hazard er að mínu mati besti leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni. Það er erfitt að segja til um hvort hann fari til Spánar eða ekki. Knattspyrnumenn hafa mismunandi markmið og ég þekki Hazard ekki mjög vel,” segir Eiður.

Eiður Smári yfirgaf Chelsea og gekk í raðir Barcelona sumarið 2006 og segir hann þá ákvörðun hafa tekið verulega á.

,,Ég vildi ekki yfirgefa Chelsea þegar ég gerði það en það var óumflýjanlegt í minni stöðu á þeim tíma. Auðvitað erum við líka að tala um Barcelona sem er nánast ómögulegt að hafna. Chelsea er frábær klúbbur sem ég elska og ég naut tímans þar. Það var erfitt að yfirgefa félagið,” segir Eiður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×