Erlent

Egyptar ráðast á búðir hryðjuverkamanna í Líbíu

Atli Ísleifsson skrifar
Koptíska kirkjan er stærsta kristna kirkjan í Egyptalandi.
Koptíska kirkjan er stærsta kristna kirkjan í Egyptalandi. Vísir/AFP
Egypski herinn gerði loftárásir á búðir hryðjuverkamanna í Líbíu í dag í kjölfar árásar vopnaðra manna á rútu sem flutti hóp kristinna manna í Egyptalandi í morgun.

Abdul Fattah al-Sisi, forseti Egyptalands, greindi frá aðgerðum egypska hersins í fyrr í kvöld og sagði að sex eldflaugum hafi verið skotið á bæinn Derna í nágrannaríkinu Líbíu.

Heimildarmenn Reuters segja menn sem hafast við í bænum hafi skipulagt árásina þar sem 28 manns hið minnsta létu lífið og 25 særðust. Réðust mennirnir á rútu sem var á leið frá Minya-héraði til klausturs heilags Samúels, um 135 kíómetrum suður af höfuðborginni Kaíró.

Sisi sagðist í sjónvarpsávarpi til egypsku þjóðarinnar ekki munu hika við að ráðast á búðir hryðjuverkamanna, sama hvar þær væru, og hét hann því að verja Egyptum frá hinu illa.

Sagði forsetinn að rétt væri að refsa öllum þeim ríkjum sem styðja við bakið á hryðjuverkahópum, auk þess að hann hvatti Donald Trump Bandaríkjaforseta til að aðstoða Egypta í baráttunni.

Enginn hópur hafi enn lýst yfir ábyrgð á ódæðinu í gærmorgun en hryðjuverkasamtökin ISIS hafi ítrekað ráðist á kirkjur koptísku rétttrúnaðarkirkjunnar í Egyptalandi síðustu misserin, en koptíska kirkjan er stærsta kristna kirkjan þar í landi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×