Erlent

Egyptar hvetja til að lögregla í Ferguson sýni stillingu

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla í Ferguson handtók 47 manns í mótmælum næturinnar sem voru þó friðsamlegri en mótmæli síðustu daga.
Lögregla í Ferguson handtók 47 manns í mótmælum næturinnar sem voru þó friðsamlegri en mótmæli síðustu daga. Vísir/AFP
Egypsk stjórnvöld hafa hvatt bandarísk yfirvöld til að sýna stillingu í átökum sínum við mótmælendur í bandaríska bænum Ferguson í Missouri-ríki.

Fréttaskýrendur segja yfirlýsingu Egypta í meira lagi sérstaka þar sem egypsk stjórnvöld þiggja um 1,5 milljarð Bandaríkjadala í fjárhagsaðstoð frá Bandaríkjunum á ári hverju.

Í yfirlýsingu egypskra stjórnvalda segir að þau hafi fylgst grannt með stigmögnun mótmælanna síðustu daga sem hófust eftir að lögreglumaður skaut hinn átján ára Michael Brown til bana þann 9. ágúst síðastliðinn.

Yfirlýsing Egypta þykir svipa mjög til yfirlýsingar Baracks Obama Bandaríkjaforseta um óeirðirnar í Kaíró á síðasta ári, en forsetinn er nú undir þrýstingi að finna leiðir til að binda endi á mótmælin í útjaðri St. Louis-borgar.

Yfirlýsingin frá utanríkisráðuneyti Egypta var birt fljótlega eftir að Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvatti lögreglu í Missouri til að hlíta bandarískum og alþjóðlegum reglum í aðgerðum sínum.

Í frétt BBC segir að aðstoðarráðherra í ríkisstjórn Írans hafi einnig látið hafa eftir sér að mótmælin væru merki um rasisma á Vesturlöndum. Þá kemur fram á kínverska ríkisfjölmiðlinum Xinhua að þrátt fyrir hlutverk Bandaríkjanna sem alþjóðlegur verndari mannréttinda þá sé „mikið svigrúm til bætingar heima fyrir.“ Því sé betra fyrir Bandaríkin að einbeita sér að því að leysa sín eigin vandamál í stað þess að benda á aðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×