Viðskipti innlent

Egils Límonaði uppselt hjá framleiðanda

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Límonaðið var vinsælla en gert hafði verið ráð fyrir.
Límonaðið var vinsælla en gert hafði verið ráð fyrir.
Egils Límonaði er uppselt hjá framleiðanda mánuði áður en áætlanir gerðu ráð fyrir. Er það svo þrátt fyrir að framleiðslan hafi verið tvöfölduð í kjölfar þess hve vel var tekið á móti drykknum.

„Það er óhætt að segja að þessi mikla sala hafi komið okkur á óvart þó við höfum alltaf haft ómælda trú á vörunni,“ segir Sigurður Valur Sigurðsson vörumerkjastjóri Ölgerðarinnar. „Stefnan var að hafa vöruna í hillum verslana frá miðjum maí fram í miðjan september en strax í byrjun júní var ljóst í hvað stefndi.

Drykkurinn seldist upp og var ófáanlegur í tvær vikur í sumar meðan unnið var að því að útvega aðföng svo hægt væri að hefja framleiðsluna á ný. Það gerðist í byrjun júlí og dalaði salan ekkert. Um verslunarmannahelgina var ljóst að salan var tvöföld á við það sem gert hafði verið ráð fyrir í upphafi. Það er því óhætt að fullyrða að endurkoma Límonaðisins hafi farið vel í landann.

Límonaðið hverfur úr kælum búða í vetur en stefnt er að því að það snúi aftur næsta vor. „Það er aldrei að vita nema við verðum eitthvað fyrr á ferðinni. Við munum einnig skoða hvort tilefni sé til að fara í frekari vöruþróun með Límonaðið,“ segir Sigurður.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×