Innlent

Eggi hent í hús Kristins Gylfa: Fjölskyldan skelkuð

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar

Eggi var kastað í hús Kristins Gylfa, framkvæmdastjóra Brúneggja í seinustu viku eftir umfjöllun fjölmiðla um fyrirtækið. Þetta kom fram í viðtali við Kristinn í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis í dag.

Í viðtalinu var Kristinn meðal annars spurður hvernig honum og hans fólki hefði liðið undir umfjöllun fjölmiðla frá því í seinustu viku.

„Okkur hefur ekki liðið vel, okkar fólk hefur tekið þetta mjög nærri sér, það er verið að kalla okkur eigendur Brúneggja dýraníðinga þegar við höfum verið í landbúnaðarrekstri í 35 ár og það vita allir sem þekkja okkur að við höfum alla tíð farið vel með okkar dýr“ svaraði Kristinn.

Sjá einnig: Neytendur blekktir árum saman: Auglýstu vistvæn egg án þess að uppfylla skilyrði

Kristinn sagði að þeir bræður hefðu ekki alltaf getað verið í húsunum við nægilegt eftirlit og að sumt hefði mátt betur fara. Sér þætti það mjög miður. Áður hefði samstarf við fólk um sölu á vörunni alltaf verið gott.

„Þessi uppákoma hefur stórskaðað okkar ímynd og ég vona bara að við fáum tækifæri til þess að sanna okkur á ný. Hvort fyrirtækið verði undir höndum nýrra aðila eða hvort það líður undir lok verður bara að koma í ljós“ sagði Kristinn.

Sjá einnig: Brúnum eggjum kastað í Matís fyrir misskilning

Loks var Kristinn spurður hvort hann og hans fólk hefði orðið fyrir aðkasti eftir umfjöllun fjölmiðla.

„Já, eggi var hent í húsið þar sem ég og fjölskyldan mín búum eitt kvöldið í síðustu viku. Krökkunum leið ekki vel með það.“ sagði Kristinn.

Hann sagði jafnframt að hann teldi fólk gríðarlega dómhart. Kristinn tók þó fram að fyrirtæki hans vilji eiga samtal og biðlaði til fólks um að horfa á málið í heild sinni. Þetta gæti verið hvatning til sín og annarra um að vanda betur til verka í matvælaframleiðslu á Íslandi.

Kristinn var ekki viss hvort að umrætt egg hefði verið brúnegg.  


Tengdar fréttir

Spældir enda búnir að missa alla kúnna

Kristinn Gylfi Jónsson, einn af eigendum Brúneggja, segir afar erfitt að takast á við þær aðstæður sem sköpuðust eftir að Kastljós fjallaði um málefni fyrirtækisins á mánudagskvöld.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×