Íslenski boltinn

Ég var á vellinum þennan dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Elís Þrándarson hefur verið í aðalhlutverki hjá Víkingum í sumar.
Aron Elís Þrándarson hefur verið í aðalhlutverki hjá Víkingum í sumar. Vísir/GVA
Víkingur sækir Keflavík heim í fyrri undanúrslitaleik Borgunarbikarsins í kvöld, en leikurinn hefst klukkan 19:15.

Víkingum hefur gengið allt í haginn að undanförnu, en nýliðarnir sitja í þriðja sæti Pepsi-deildarinnar með 25 stig eftir 13 leiki.

Aron Elís Þrándarson hefur slegið í gegn í sumar, en þessi 19 ára leikmaður hefur verið í aðalhlutverki í sóknarleik Víkinga. Hann kveðst spenntur fyrir leiknum:

„Við komum fullir sjálfstrausts í leikinn í kvöld. Við unnum Keflvíkinga 3-1 fyrir nokkrum vikum, en það hjálpar okkur ekki neitt í kvöld.

„Bikarkeppnin er allt öðruvísi. Leikmenn beggja liða munu gefa allt sem þeir eiga í leikinn í kvöld og svo verður bara að koma í ljós hvort liðið hefur betur. Vonandi vinnum við leikinn,“ sagði Aron sem segist muna eftir því þegar Víkingur komst síðast í undanúrslit bikarkeppninnar, fyrir átta árum.

Þá mætti Fossvogsliðið Keflavík, líkt og nú, á Laugardalsvellinum. Víkingar eiga þó ekkert sérstaklega góðar minningar frá leiknum sem tapaðist 4-0.

„Ég var á vellinum þennan dag. Maður sat bara í stúkunni og svekkti sig yfir úrslitunum. Þetta gekk ekki nógu vel,“ sagði Aron og bætti við:

„Leikurinn í kvöld er stærsti leikur sem félag hefur spilað í mörg, eða frá 2006. Það verður gaman að spila í kvöld.“

Aron segir Keflavíkurliðið sterkt og erfitt viðureignar.

„Þeir eru gríðarlega hættulegir fram á við. og með góðar skyndisóknir. Elías Már (Ómarsson) er frábær og fleiri þarna, og við þurfum að hafa góðar gætur á þeim," sagði ungstirnið.

Umræddur Elías Már sagði í viðtali við Vísi fyrr í dag, að hann borðaði alltaf plokkfisk fyrir leiki. En hvað er á matardisknum hjá Aroni fyrir leiki?

„Ég fæ mér nú oftast pasta með kjúkling. Það hefur virkað vel hingað til. Ég er ekki mikið í plokkfisknum, allavega ekki fyrir leiki,“ sagði Aron í léttum dúr að lokum.


Tengdar fréttir

Sögulegur árangur Víkinga

Víkingur hefur komið liða mest á óvart í Pepsi-deild karla, en eftir tólf umferðir sitja nýliðarnir í 4. sæti með 22 stig, jafnmörg og Íslandsmeistarar KR.

Fáum undanúrslitaleik á heimavelli í fyrsta sinn í 17 ár

Í fyrsta sinn síðan 1997 fer fram undanúrslitaleikur í bikarkeppni karla í Keflavík þegar heimamenn taka á móti Víkingum í Borgunarbikarnum í kvöld. Liðin mættust á sama stigi fyrir átta árum en þá unnu Keflvíkingar öruggan sigur og urðu að lokum bikarmeistarar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×