Lífið

Ég stefni á að vera hátt uppi á afmælinu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Við ætlum að láta okkur hverfa og halda jólin með óhefðbundnum hætti að þessu sinni í tilefni þessara tímamóta.“
"Við ætlum að láta okkur hverfa og halda jólin með óhefðbundnum hætti að þessu sinni í tilefni þessara tímamóta.“ Vísir/Vilhelm
Er það rétt, Stefán sem stendur í okkar bókum að þú sért fimmtugur?

„Já, einhvern pata hef ég haft af því.“

Leggst það vel í þig?

„Já, mjög vel. Ég er svo sprækur. Það er líka mikið eftir.“

Þannig hefst afmælisviðtal við Stefán Hjörleifsson hljóðfæraleikara í hinni sívinsælu hljómsveit Nýdönsk og framkvæmdastjóra fyrirtækisins ebækur.is. sem er rafbókasala.

„Ég rek fyrirtæki sem heitir Skynjun og við gefum bæði út hljóðbækur og seljum rafbækur á ebækur.is. Það er svaka törn núna.“



Þannig að jólabókaflóðið nær til þín.

„Já, mér tókst að koma mér í það þessi síðustu ár. Ég finn mér alltaf eitthvað.“

Starfarðu minna í tónlistinni núna en undanfarin ár?

„Já, ég hef minnkað það töluvert. Ég spila náttúrlega bara með Nýdönsk, það er það eina sem ég geri í músík og hef gert síðustu árin. En við erum nýbúin að gefa út plötu og hún gengur alveg súpervel. Við erum í jólaplötuflóðinu líka. Héldum tvenna tónleika í Eldborginni í haust og platan kom út sama dag, svo gáfum við út vínilplötu svo við erum alveg með eins og unga fólkið þótt við séum miðaldra.“

Ætlarðu að halda upp á afmælið?

„Já, ég stefni á að vera hátt uppi á afmælinu, eins hátt og ég kemst. Ætla að fljúga suður í Alpana með konu og tveimur dætrum, nítján og tuttugu og eins.“

Ertu skíðamaður?

„Nei, ég telst nú seint til skíðamanns en ég hef voða gaman af að skíða. Læt samt bröttustu brekkurnar alveg eiga sig.“



Þið verðið þá þar suður frá um hátíðarnar?

„Já, við ætlum að láta okkur hverfa og halda jól með óhefðbundnum hætti að þessu sinni í tilefni þessara tímamóta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×