Skoðun

Ég er líka hugsi!!

Elínborg Jónsdóttir skrifar
„Maður bara skilur þetta ekki" segir fólk gjarnan þegar kjaradeilu ljósmæðra ber á góma og ég lái það engum. Hvernig á að skilja það að lækka í launum við að bæta við sig námi?

Skýringa er oft að leita í fortíðinni.

Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í starfi þá var nám til starfsréttinda í ljósmóðurfræði tveggja ára grunnnám frá Ljósmæðraskóla Íslands.

Nám til starfsréttinda í hjúkrunarfræði var þá 3 ár og fór fram í Hjúkrunarskóla Íslands.

Þegar ég útskrifaðist sem ljósmóðir árið 1976 eftir að hafa áður lokið hjúkrunarnámi vorum við fáar sem höfðum farið þá leið. Starfandi ljósmæður í landinu voru þá með tveggja ára grunnnám til starfsréttinda. Síðan fóru fleiri hjúkrunarfræðingar í ljósmæðranám og  ljósmæður fóru að bæta við sig hjúkrunarnámi.

Þegar þessi hópur með báða skólana kom til ljósmóðurstarfa þótti ekki við hæfi að launa þær mikið hærra en þær reyndu ljósmæður sem fyrir voru og kenndu þeim og leiðbeindu.

Ekki var talið tímabært að hækka grunnlaun allra ljósmæðra meðan meirihluti starfandi ljósmæðra væri eingöngu með ljósmæðranám.

Við sem höfðum lengra námið yrðum að bíða þar til hlutföll breyttust í stéttinni og lengra námið yrði ríkjandi, þá myndi vera hægt að hækka grunnlaun allra ljósmæðra eins og eðlilegt væri fyrir það nám  sem nú var að verða algilt.

Svo kom að því að nám til starfsréttinda varð ljósmæðranám eftir hjúkrunarnám og hefur síðan færst á háskólastig.

Mjög fáar ljósmæður með eingöngu ljósmæðranám eru enn starfandi og flestar þeirra við starfslok. Hlutfall þeirra er því að nálgast núllið og því ætti ekki að vera nein fyrirstaða fyrir því að laga nú grunnlaunasetningu ljósmæðra til þess sem eðlilegt getur talist með tilliti til menntunar og leiðrétta þennan halla í eitt skipti fyrir öll sem til kom vegna aðstæðna sem eru ekki lengur fyrir hendi.

Ég held að það sé þjóðarsátt um það að lækka ekki í launum við það að bæta við sig námi.

Ljósmæður hafa sýnt langlundargeð en nú er það á þrotum.

Elínborg Jónsdóttir, ljósmóðir.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×