Viðskipti innlent

Eftirlýsti kaupsýslumaðurinn hyggst bjóða í tískukeðjur Kaupþings aftur

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Ajay Khaitan.
Ajay Khaitan. Vísir/AFP
Fjárfestingasjóður Ajay Khaitan, Emerisque Brands, hefur áhuga á að endurvekja viðræður við Kaupþing ehf. um kaup á tískukeðjunum Oasis, Warehouse og Coast. Þetta kemur fram hjá vefmiðli Retail Week. Khaitan er eftirlýstur af Interpol og hefur verið gefin út handtökuskipun á hendur honum fyrir að hafa lagt fram fölsuð skjöl í tengslum við deilu um fjármögnun sem nær aftur um 30 ár.

Kaupþing hafði áður hætt við fyrirhugaða sölu til Emerisque eftir að í ljós kom að eigandinn væri eftirlýstur. Talið er að boðið hafi numið um 60 milljónum punda, rúmlega 8,3 milljörðum íslenskra króna samkvæmt gengi dagsins í dag.

Sjá einnig: Eftirlýstur kaupsýslumaður vill tískukeðjur frá Kaupþingi

Khaitan hefur alla tíð neitað þeim sökum sem á hann hafa verið bornar, en þær má rekja aftur til fjársvika í indversku borginni Kolkata árið 1988. Talsmaður hans segir að deilan hafi snúið að sjö þúsund punda kröfu, 972 þúsund krónur, og að hún hafi verið greidd fyrir löngu síðan.

Talsmaðurinn bætti við að Khaitan hefði flutt til Bretlands fyrir 20 árum og hefur ekki getað farið aftur til Indlands til að vera viðstaddur fjölda réttarhalda vegna þessa máls, sem hefur orðið til þess að handtökuskipunin var gefin út.

Félagið Aurora Fashions rekur Warehouse, Oasis og Coast en það hefur verið í eigu Kaupþings frá 2009. Áður voru keðjurnar í eigu Mosaic Fashions, en Baugur Group var stærsti eigandi þess félags, en það varð gjaldþrota í kjölfar hrunsins.

Keðjurnar reka um 750 verslanir víða um heim og eru þær með um 5.000 starfsmenn á sínum snærum.

Heimildarmenn Retail Week segja að viðræður séu á byrjunarreit og að mikil vinna sé framundan eigi samþykkt að nást.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×