Innlent

Eftir­lits­mynda­véla­kerfið í mið­borg Reykja­víkur tekið til gagn­gerrar endur­skoðunar

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Skjáskot úr myndbandi lögreglunnar sem unnið var úr eftirlitsmyndavélum í miðbænum. Myndbandið sýnir ferðir Birnu aðfaranótt laugardags.
Skjáskot úr myndbandi lögreglunnar sem unnið var úr eftirlitsmyndavélum í miðbænum. Myndbandið sýnir ferðir Birnu aðfaranótt laugardags.
Eftirlitsmyndavélakerfið í miðborg Reykjavíkur verður tekið til gagngerrar endurskoðunar í kjölfar máls Birnu Brjánsdóttur.

Birna sást síðast á eftirlitsmyndavél við Laugaveg 31 klukkan 05:25 að morgni laugardags. Hins vegar sést ekki á upptökum úr eftirlitsmyndavélum í hvaða átt Birna fór í kjölfarið.

Þá var ekki hægt að greina bílnúmer á rauðum fólksbíl af gerðinni Kia Rio sem leitað var síðustu daga. Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn og stjórnandi leitarinnar, sagði á blaðamannafundi í gær að lögreglan hefði vissulega kosið að hafa betra myndefni til að vinna úr.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er það lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að ákveða fjölda, staðsetningu og gerð eftirlitsmyndavéla í miðborg Reykjavíkur.

Hjá lögreglunni fengust þær upplýsingar að taka þurfi eftirlitsmyndavélakerfið í miðborginni til gagngerrar endurskoðunar. Það verði gert á næstu vikum í samráði við Reykjavíkurborg.

 

Lögreglan mun í kjölfar þessa máls gera tillögu að úrbótum til borgarinnar, meðal annars um að fjölga eftirlitsmyndavélum í miðborginni.


Tengdar fréttir

Nota Tinder til að vekja athygli á hvarfi Birnu

Ungt fólk hefur undanfarið skipt út myndum af sér á samfélagsmiðlinum Tinder til að vekja athygli á hvarfi Birnu Brjánsdóttur sem saknað hefur verið síðan á aðfaranótt laugardags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×