Skoðun

Eftirlit með lögreglu

Eyþór Víðisson skrifar
Formlegt, borgaralegt eftirlit með störfum lögreglu tíðkast víða um heim en þar tekur hópur fólks, sem óháður er lögreglustörfum, fyrir kvartanir, ábendingar og einstök mál til skoðunar.

Einhverjir vilja meina að innra eftirlit sé eina leiðin til aðhalds lögreglu þar sem óbreyttir borgarar skilji ekki störf lögreglu nægilega vel til að geta rýnt þau réttilega.

Einnig að til staðar séu önnur eftirlitsúrræði; s.s. ríkislögreglustjóri, ríkissaksóknari og jafnvel fjölmiðlar. Öðrum finnst þetta ekki nóg.

Samkvæmt lýðræðislegu kerfi eftirlits og jafnvægis ætti engin(n) að hafa eftirlit með sjálfum sér. Yfirgripsmiklar valdheimildir og svigrúm lögreglu og mikilvæg staða hennar sem hliðvörður refsikerfisins gerir það mjög mikilvægt að almenningur eigi óháða leið til kvartana ef þessi mikilvæga stofnun misnotar vald sitt og leitar t.d. skjóls á bak við hinn svokallaða „bláa vegg þöggunar“.

Þessi sýn segir að aðeins með utanaðkomandi rýni geti samfélagið verið öruggt um að löggæslan taki jákvæðum breytingum í verklagi sínu og menningu.

Báðar þessar hliðar eiga við rök að styðjast; sjónarhorn og reynsla lögreglu er mikilvæg í umræðu sem þessari, á meðan allir geta verið sammála um að einungis innra eftirlit hennar er ekki nóg.

Tilfinningarík og pólitísk umræða

Umræðan er bæði tilfinningarík og pólitísk. Við viljum gott eftirlit með jafn mikilvægum störfum og löggæsla er, en viljum þó ekki kæfandi vinnuumhverfi þar sem árangur líður fyrir of mikið eftirlit. Jafnvægi næst aðeins ef við veitum löggæslunni frelsi til að vinna sína vinnu innan laga, reglna og þess verklags sem gildir í hinu formlega kerfi. Þessu jafnvægi er erfitt að ná og þó svo að erfitt sé að staðhæfa að borgaralegt eftirlit sé árangursríkara en það innra, þá er enginn vafi á að það ríkir meiri sátt um það fyrrnefnda hjá almenningi.

Því miður er það svo að margar þessara nefnda eru settar saman í kjölfar atburðar sem vakið hefur athygli og því er þeim hættara við að rekast á þau úrræði sem fyrir eru og skapa þannig oft fleiri vandamál en þær leysa.

Slíkt fyrirkomulag ætti að láta lögreglu um rannsókn eigin mála en það væri síðan í höndum óháðra að fara yfir þá rannsókn og meta hana, kalla eftir frekari gögnum og gefa álit. Talsvert svigrúm ætti að veita löggæslu til að þróa sína menningu og verklag, einnig ætti að láta stjórnendur innan löggæslunnar sjá áfram um agaviðurlög vegna misferlis eða vanrækslu; það er jú þeirra starf.

Löggæsla hér á landi er á leið að frekari fagmennsku og við ættum að treysta henni fyrir þeirri vegferð og því að sjá um mistæka starfsmenn sína. Þó er óháð eftirlit mikilvægt því það verða alltaf einhverjir sem misnota vald sitt, stjórnendur eru mannlegir og aðhald er öllum hollt.

Lykillinn að bættri löggæslu er góð stjórnun, því það eru að mestu meginreglur í vinnustaðarmenningunni sem ákvarða samþykkta hegðun, en þar vísa stjórnendur leiðina, í gegnum ráðningar, þjálfun og verklagsreglur.

Viðeigandi, óháð eftirlit er, ásamt öðrum leiðum, tímabær leið til að fá það besta út úr þessari mikilvægu stofnun sem löggæslan er.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×