Innlent

Efst í háhraðaneti og sjónvarpi yfir netið

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á tæknisýningu Slush sem fram fór í Tókýó í Japan í síðasta mánuði.
Á tæknisýningu Slush sem fram fór í Tókýó í Japan í síðasta mánuði. Mynd/Slush Media
Á Íslandi eru sem fyrr flestar háhraðainternettengingar miðað við höfðatölu að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) og systurstofnanir hennar á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum hafa tekið saman.

„Þetta er sjöunda árið í röð sem fjarskiptanotkun íbúa Norðurlandanna er borin saman og Eystrasaltslöndin hafa einnig verið með síðustu ár,“ segir í umfjöllun PFS. Fram kemur að á heildina litið sé fjarskiptanotkun mjög lík í löndunum átta og að íbúar þeirra nýti sér sambærilega tækni á svipaðan máta. „Þrátt fyrir það má þó víða sjá mun á notkun og þróun einstakra þátta.“

Fjöldi háhraðainternettenginga hér, þar sem miðað er við auglýstan niðurhalshraða sem svarar 30 megabitum á sekúndu eða meira, er sagður til kominn vegna fjölgunar VDSL og ljósleiðaratenginga hér á landi. Um leið er sagt áberandi að fjölgun áskrifta í farnetum hafi nánast staðið í stað í flestum samanburðarlöndunum.

Þó svo að einhverri mettun virðist náð í fjölda farsíma-, eða fartækjaáskrifta þá er í umfjöllun PFS bent á að skýrslan sýni mikla aukningu í gagnanotkun á farnetum í öllum löndunum. „Þar er Ísland í miðjum hópnum, en þessi þróun er alls staðar hröð og stöðug.“

Aukning gagnaflutninga yfir farnet sé langmest í Lettlandi, eða 175 prósenta aukning á árinu 2015. „Ein ástæða þessa er að eitt helsta fjarskiptafyrirtæki landsins býður áskriftir án takmarkana á gagnaflutninga auk þess að bjóða sjónvarpsstreymi um farsímanetið,“ segir í skýrslunni.

Í öðrum löndum nam aukning gagnaflutninganna milli 28 og 93 prósent. Hér á landi fór mánaðarlegur gagnaflutningur yfir farsímanetið að jafnaði, miðað við höfðatölu, úr 1,54 gígabætum í 2,56 gígabæt. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. júní 2016






Fleiri fréttir

Sjá meira


×