Lífið

Efnt til vatnsslags í tilefni af sumardeginum fyrsta

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þátttakendur geta gert ráð fyrir því að blotna.
Þátttakendur geta gert ráð fyrir því að blotna. mynd/66°n
Á fimmtudaginn mætir hið langþráða sumar til landsins, í það minnsta að nafninu til, en þá er sumardagurinn fyrsti. Í tilefni af því verður efnt til vatnsslags á Lækjartorgi en viðburðurinn hefur hlotið nafnið H2015.

Það er 66°Norður sem stendur fyrir viðburðinum en alls fara fram fjórir slagir sem hver um sig er fimmtán mínútna langur. Í hverjum slag mætast tvö lið en tíu manns verða í hvoru liði fyrir sig. Þátttakendur fá vatnsbyssur, vatnsfötur og vatnsblöðrur til að bleyta andstæðinga sína auk þess að þeir fá lánuð regnföt. Reglurnar eru einfaldar, liðið sem er á undan að klára vatnsbirgðir sínar sigrar. Aldurstakmark er 16 ár.

„Við eigum eflaust öll góðar minningar tengdar góðviðrisdögum þegar maður lét renna í vatnsblöðru eða vatnsbyssu og fór út í sakleysislegt vatnsstríð með vinum sínum. Mig hefur lengi dreymt um að taka þetta á næsta stig og hóa tíu tuttugu manns saman en það varð aldrei af því. Í einhverjum skilningi er ég því loksins að láta æskudrauminn rætast," segir Fannar Páll Aðalsteinsson, markaðsstjóri hjá 66°Norður. „Ef vel gengur þá vonumst við til að gera þetta árlega héðan í frá. H2016, H2017 og H2018 eru klárlega á langtímaplaninu,“ bætir hann við og hlær.

Leikarinn Arnmundur Ernst Backmann verður kynnir og vonast eftir góðu veðri. „Auðvitað vonum við að það verði glampandi sól. En þótt það sé búið að vera kalt í veðri þá hef ég engar áhyggjur. Það mun enginn blotna né krókna því það fá allir þátttakendur lánuð regnföt. Að því leytinu til er þetta mjög fullorðinslegur vatnsslagur. Fólk getur misst sig algjörlega og farið svo ægilega virðulegt í vinnuna eða skrúðgöngu beint á eftir.“

Skráning í slaginn fer fram á Facebook síðu 66°Norður og hefst í dag kl. 12:00. Hver og einn getur skráð mest fimm einstaklinga. Gamla góða reglan fyrstir koma, fyrstir fá verður í hávegum höfð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×