Viðskipti innlent

Efast um að nýtt tól Seðlabankans gegn vaxtamunaviðskiptum virki

ingvar haraldsson skrifar
Jón Daníelsson telur að skynsamlegra hefði verið að lækka stýrivexti til að koma í veg fyrir vaxtamunaviðskipti.
Jón Daníelsson telur að skynsamlegra hefði verið að lækka stýrivexti til að koma í veg fyrir vaxtamunaviðskipti. vísir
„Ég held að þessar reglur muni ekki virka,“ segir Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði hjá London School of Economics, um reglugerð Seðlabankans sem byggir á nýjum lögum frá Alþingi sem ætlað er að takmarka of mikið innflæði fjármagns til landsins, svokölluð vaxtamunarviðskipti, þar sem fjárfestar nýta sér hærri vexti hér á landi miðað við erlendis.

Reglugerðin kveður á að fjörutíu prósent af nýju gjaldeyrisinnstreymi verði bundin í eitt ár á núll prósent vöxtum. Heimild er í lögunum til að binda 75 prósent fjár í allt að fimm ár á núll prósent vöxtum. Erlendir aðilar keyptu ríkis­skuldabréf fyrir um 80 milljarða síðasta árið þar sem margir þeirra reyna að hagnast á vaxtamuninum við útlönd.

Jón segir fjölmörg lönd hafa reynt að koma böndum á fjármagnsinnflæði með svipuðum aðferðum. „Ef þetta hefur virkað annars staðar þá er það bara í einangruðum þriðja heims ríkjum en ekki í landi eins og Íslandi. Ég sé ekki að þetta geti virkað í landi sem er algjörlega í fyrsta heiminum í Norður-Evrópu með ríkustu löndum í heiminum þar sem við erum hluti af mjög virkum peninga- og efnahagsmarkaði milli landanna í kringum okkur,“ segir Jón.

Jón segir að við lestur reglnanna hafi honum dottið í hug nokkrar leiðir sem hægt væri að nota til að komast fram hjá reglunum. „Eins og reglugerðin er skrifuð þá er ekki mikið mál að fara fram hjá henni,“ segir hann. Hægt væri að nýta sér afleiðusamninga eða svokallaða mismunarsamninga (e. contract for difference) þar sem tveir aðilar skiptast á vaxtatekjum af eignum hér á landi og erlendis. „Þú skiptir á peningaflæði án þess að skipta á eignarhaldinu.“ Slíkt sé mjög erfitt að hindra nema að vera með mjög íþyngjandi eftirlit með gjaldeyrismörkuðum.

„Eina leiðin til að láta þetta bíta er að Seðlabankinn sé með mjög virkt eftirlit með flæði gjaldeyris inn og út úr landinu. Seðlabankastjóri verður nokkurs konar gjaldeyrislögreglustjóri Íslands. Það mun auka kostnað töluvert mikið og miklu betri leið væri einfaldlega að hafa vextina miklu lægri. Að Seðlabankinn sé í því hlutverki mun draga úr trúverðugleika bankans og möguleikum hans til að sinna sínu eðlilega starfi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×