Innlent

Efast um að gerð búvörusamninga standist stjórnarskrá

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Andrés Magnússon er framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.
Andrés Magnússon er framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. vísir/gva/stefán
Samtök verslunar og þjónustu draga í efa hvort og hvernig gerð búvörusamninga stjórnvalda við Bændasamtök Íslands standist stjórnarskrá. Þá gagnrýna samtökin hvernig stefnt sé að því að keyra málið áfram í gegnum Alþingi.

Þetta kemur fram í umsögn SVÞ við frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum, en frumvarpinu er ætlað að lögfesta búvörusamningana við Bændasamtökin.

Í umsögninni segir meðal annars að fulltrúar framkvæmdavaldsins hafi bundið hendur Alþingis varðandi þau fjárútlát sem samningarnir hafi í för með sér fyrir ríkissjóði, og er því efast um að þeir standist stjórnarskrá. Samkvæmt samningunum hafi íslenska ríkið skuldbundið sig til að reiða af hendi um 130 til 140 milljarða íslenskra króna á tíu ára tímabili til viðbótar við níu milljarða króna árlegan stuðning.

„Telja samtökin að sú framkvæmd gangi gegn stjórnarskránni sem og fjárlögum, fjáraukalögum og lögum um opinber fjármál og samræmist ekki almennt viðurkenndum sjónarmiðum um fjárstjórnarvald Alþingis og þrískiptingu ríkisvaldsins.“

Þá gagnrýna samtökin að tollur á tilteknar innfluttar vörur verði leiðréttur einhliða án frekari skoðunar á öðrum tollnúmerum sem sömu sjónarmið gildi um. Því leggja SVÞ til að stigið verði skref í átt að auknu frjálsræði og samkeppni í framleiðslu og innflutningi á alifugla- og svínakjöti og með því að lækka tolla á þessum afurðum um helming.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×