Íslenski boltinn

Ef einhver leikur er sex stiga leikur, þá er það þessi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur Baldvinsson og félagar í Fram hafa unnið þrjá af síðustu fimm leikjum.
Haukur Baldvinsson og félagar í Fram hafa unnið þrjá af síðustu fimm leikjum. Vísir/Stefán
Það verður mikið undir þegar Fram og Fjölnir mætast á Laugardalsvelli í kvöld í lokaleik 19. umferðar Pepsi-deildarinnar. Hörður Magnússon, stjórnandi Pepsi-markanna og íþróttafréttamaður á Stöð 2, segir mikilvægi leiksins gríðarlegt:

„Menn tala oft fjálglega um sex stiga leiki, en ef einhver leikur er sex stiga leikur þá er það þessi. Fjölnismenn eru í verri stöðu og með sigri geta þeir sprengt fallbaráttuna upp og dregið fleiri lið niður.“

Fjölnismenn sitja í 11. og næstneðsta sæti deildarinnar með 16 stig, en liðið hefur aðeins unnið einn sigur í síðustu 16 deildarleikjum. Framarar eru með 18 stig, en Safamýrarpiltar hafa unnið þrjá af síðustu fimm leikjum sínum.

„Framarar hafa sýnt nokkurn stöðugleika í síðustu leikjum og með sigri fara þeir langt með að bjarga sér,“ segir Hörður og bætir við: „Bjarni Guðjónsson virðist hafa fundið jafnvægi í liðinu með Orra Gunnarsson í stöðu varnarsinnaðs miðjumanns. Þá hafa leikmenn eins og Jóhannes Karl Guðjónsson og Guðmundur Steinn Hafsteinsson komið sterkir inn í síðustu leikjum.“

Fjölnismenn hafa aðeins unnið þrjá leiki í deildinni, en tveir þessara sigra hafa komið gegn botnliði Þórs. Hörður segir að þrátt fyrir þetta slæma gengi sé ýmislegt í Fjölnisliðið spunnið: „Fjölnis­menn hafa verið inni í flestum leikjum að undan­skildum leiknum gegn FH í síðustu umferð (sem tapaðist 4-0). Vandamál Fjölnis hefur verið marka­skorun, en þeir hafa engan afgerandi marka­skorara. “

„Markvörðurinn Þórður Ingason hefur verið þeirra besti maður í sumar og mikið mun mæða á honum á morgun,“ segir Hörður, en Gunnar Már Guðmundsson, Þórir Guðjónsson og Christopher Tsonis eru markahæstir í liði Fjölnis með fjögur mörk hver. Sá fyrstnefndi snýr aftur úr leikbanni í kvöld ásamt fyrirliðanum Bergsveini Ólafssyni.

Fram þekkir þessa stöðu ágætlega, en liðið hefur meira og minna verið í fallbaráttu alla þessa öld. Hörður segir að sú reynsla geti nýst Safamýrarliðinu á endasprettinum:

„Framarar hafa gert það að listgrein að bjarga sér frá falli á haustin, en hins vegar eru ekki margir í liðinu nú sem hafa tekið þátt í fallbaráttu áður. Fjölnismenn hljóta að hafa búið sig undir að vera í þessari stöðu og þeir hljóta að vera hæstánægðir ef liðið heldur sæti sínu í deildinni,“ sagði Hörður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×