Lífið

Eddie Redmayne heiðraður af Elísabetu Englandsdrottningu

Anton Egilsson skrifar
Eddie Redmayne var kampakátur með orðuna.
Eddie Redmayne var kampakátur með orðuna. Vísir/Getty
Breski leikarinn og óskarsverðlaunahafinn Eddie Redmayne var í gær heiðraður af Elísabetu Englandsdrottningu fyrir framlag sitt til leiklistar. People greinir frá.

Hinn 34 ára Redmayne sem sló fyrst í gegn í söngmyndinni Les Misérables árið 2012 fékk óskarsverðlaun árið 2014 fyrir túlkun sína á eðlisfræðingnum Stephen Hawking í kvikmyndinni The Theory of Everything.

„Hún spurði mig hvort að mér líkaði betur við leikhúsið eða kvikmyndir” sagði Redmayne aðspurður um hvað hafi farið milli hans og drottningarinnar við athöfnina.

„Ég er heppinn að fá að gera eitthvað sem ég hef ástríðu fyrir. Ég er mjög þakklátur fyrir það að fá að gera eitthvað sem ég elska, því það er sjaldgæft að fólk geti það.” 

Gekk í sama skóla og Vilhjálmur Bretaprins

Redmayne þekkir vel til Windsor kastalans þar sem athöfnin fór fram enda stundaði hann nám við hinn sögufræga Eton háskóla sem er einungis steinsnar frá kastalanum. Gekk hann í skólann á sama tíma og Vilhjálmur Bretaprins, barnabarn Elísabetar Englandsdrottningar. 

„Það var mjög hrífandi að koma inn í Windsor kastalann, sérstaklega núna í kringum jólatímann vegna allra skreytinganna.“ Sagði Redmayne. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×