Viðskipti innlent

Edda og Kjölfesta kaupa í Íslandshótelum

ingvar haraldsson skrifar
Við undirritun kaupanna í morgun.
Við undirritun kaupanna í morgun.
Framtakssjóðurinn Edda, sem rekinn er af verðbréfafyrirtækinu Virðingu, og Kjölfesta, sem einnig er rekinn af Virðingu í samstarfi við ALM Verðbréf, hafa keypt 15 prósenta hlut í Íslandshótelum.

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Íslandshótel reka 15 hótel um land allt. Þar á meðal Grand Hótel, Hótel Reykjavík Centrum, Best Western Hótel Reykjavík ásamt Fosshótelunum en tólfta Fosshótelið mun bráðlega opna við Höfðatorg. Í sumar verða hótelherbergi Íslandshótela orðin 1.400.

Aðrir eigendur Íslandshótela eru Ólafur D. Torfason og fjölskylda. Ólafur, sem jafnframt er stjórnarformaður Íslandshótela, segir í tilkynningu að viðskiptin munu styðja vel við þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er á komandi árum hjá Íslandshótelum.

Edda er fimm milljarða króna framtakssjóður en hluthafar eru lífeyrissjóðir og fagfjárfestar. Edda á m.a. í 40 prósenta hlut í Securitas hf. ásamt 25 prósent hlut í Pizza-Pizza ehf., sérleyfishafa Domino´s Pizza á Íslandi.

Fjárfestingarfélagið Kjölfesta er einnig í eigu fagfjárfesta og lífeyrissjóða. Félagið á 30 prósenta hlut í Senu ehf. og í EVU ehf., auk rúmlega 24 prósenta hlutar í Meniga ehf., og tæpan 29 prósenta hlut í Odda hf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×