Erlent

Ebóluveiran klassískt „fóður“ fyrir þá sem smíða samsæriskenningar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ýmsar samsæriskenningar varðandi ebólu hafa sprottið upp seinustu misserin eftir því sem veiran hefur breiðst meira út.
Ýmsar samsæriskenningar varðandi ebólu hafa sprottið upp seinustu misserin eftir því sem veiran hefur breiðst meira út. Vísir/Getty
Útbreiðsla ebóluveirunnar um heiminn hefur vart farið framhjá neinum. Eins og gjarnan vill verða í umræðunni hafa sprottið upp hinar ýmsu samsæriskenningar varðandi faraldurinn. New York Times fjallaði um nokkrar þeirra um helgina.

Á meðal þeirra sem hafa tjáð sig um veiruna er söngvarinn Chris Brown. Hann sagði á Twitter að hann teldi ebólu vera leið til að stjórna fólksfjölgun. Það er einmitt í takti við það sem líberíska dagblaðið Daily Observer hélt fram í september síðastliðnum.

Blaðið birti þá grein þar sem því var haldið fram að ebóluveiran væri í raun efnavopn, runnið undan rifjum Bandaríkjanna, til að fækka íbúum jarðar. Þá hafa íhaldssamir Bandaríkjamenn, á borð við útvarpsþáttastjórnendurna Rush Limbaugh og Lauru Ingraham, haldið því fram að Barack Obama hafi sent hjálparlið til Afríku þar sem hann finni til svo mikillar sektarkenndar vegna þrælahalds og nýlendustefnu Vesturveldanna á sínum tíma. Með því að senda hjálparlið til landa þar sem ebóla hefur breiðst út sé Obama vísvitandi að stofna lífi Bandaríkjamanna í hættu.

Þá hefur sú saga einnig orðið lífseig að heilbrigðisstarfmenn og lyfjafyrirtæki vinni saman að því að breiða út, og síðan lækna sjúkdóminn, til að lyfjafyrirtækin græði sem mest. Þó að það hljómi afar fjarstæðukennt þá segir lagaprófessorinn Mark Fenster kenninguna þess eðlis að okkur gæti þótt hún trúanleg.

„Það er staðreynd að við reiðum okkur á einkafyrirtæki sem þróa og framleiða lyf. Okkur finnst það kannski ekkert sérstakt, en vegna þessa finnst okkur ekkert svo erfitt að ímynda okkur að lyfjafyrirtækin vinni fyrst og fremst í sína þágu,“ segir Fenster í samtali við New York Times.

Michael Barkun, prófessor í stjórnmálafræði, segir að samsæriskenningar þurfi ekki að vera sannar til að kenna okkur um sitthvað um okkur sjálf. Barkun segir að samsæriskenningar séu ákveðin leið sem fólk notar til að tjá kvíða og áhyggjur.

Að mati fræðimanna er ebóluveiran klassískt „fóður“ fyrir þá sem smíða samsæriskenningar: ólæknanlegur sjúkdómur sem dregur fólk hratt til dauða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×