Körfubolti

Dýrt útvarpsviðtal fyrir Steve Kerr

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Kerr mótmælir dómi.
Steve Kerr mótmælir dómi. Vísir/Getty
Steve Kerr, þjálfari Golden State Warriors í NBA-deildinni, fékk væna sekt frá NBA-deildinni í gær fyrir ummæli sín í útvarpsþætti í síðustu viku.

NBA-deildin sektaði Kerr um 25 þúsund dollara eða um 2,9 milljónir íslenskra króna. Þetta var því afar dýrt útvarpsviðtal fyrir Steve Kerr.

Steve Kerr gagnrýndi í þessu viðtali skrefadóma NBA-dómara eftir leik Golden State Warriors og Toronto Raptors.

Umsjónarmenn þáttarins á KNBR 680 útvarpsstöðinni fengu Steve Kerr í heimsókn og þeir fóru að ræða skrefadóma í NBA-deildinni.  Það kveikti í Steve Kerr sem nefndi ekki aðeins skref sem voru ekki dæmd á DeMar DeRozan, leikmann Toronto Raptor, í nýloknum leik við Golden State. Kerr gekk þó lengra en að benda á það.

„Hvernig stendur á því að allir sjá þessi skref nema þessir þrír sem við borgum fyrir að dæma leikinn? Ég átta mig ekki á þessu, þetta er stórfurðulegt,“ sagði Steve Kerr í viðtalinu.

Hann bauðst líka til að taka saman myndband með vandræðalegum skrefum sem leikmenn hafa komist upp með í NBA-deildinni.

„Uppáhaldið mitt er þegar þú sérð leikmann í gestaliðinu skrefa og dómarana ekki dæma neitt þótt að það séu þúsund manns að gera skrefamerkið í stúkunni. Hvernig sáu allir þetta en ekki dómararnir?“

Hann hefði betur sleppt því en kannski munar hann ekki það mikið um þrjár milljónir enda vel launaður kappinn.

Það fylgir þó sögunni að Golden State Warriors liðið vann þennan leik á móti Toronto Raptors 127-121.  

DeMar DeRozan tók greinilega fjögur skref áður en hann skoraði körfuna í leiknum. Það er enginn vafi á því en NBA-deildin var ekki sátt með gagnrýnina frá einum besta þjálfara NBA-deildarinnar.

Steve Kerr alveg brjálaður út í dómarana.Vísir/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×