Innlent

Dýrslegt kynlíf með prjónuðum smokkum

ingvar haraldsson skrifar
Eiríkur Valdimarsson, þjóðfræðingur segir fólk fyrr á öldum hafa verið líkara okkur en við höldum.
Eiríkur Valdimarsson, þjóðfræðingur segir fólk fyrr á öldum hafa verið líkara okkur en við höldum. Vísir/pjetur
„Kirkjan gaf út að trúboðinn væri stelling sem átti að virka og væri guði þóknanleg,“ segir Eiríkur Valdimarsson, þjóðfræðingur, sem mun halda fyrirlestur um kynlíf fyrri alda í Þjóðminjasafni Íslands klukkan átta á Menningarnótt. „En fólk í bændasamfélaginu hafði fyrir augunum kynlíf yfir fengitímann því þeir sáu hvernig kindurnar gerðu það. Það er hægt að leiða líkur að því að kirkjan hafi viljað berjast gegn einhverskonar dýrslegu kynlífi eða dýrslegum aðferðum.“

Að sögn Eiríks hefur kirkjan einnig viljað skipta sér að ýmsu öðru er varðar kynlíf. „Það var til dæmis bannað fólki að stunda kynlíf fyrir giftingu sem þýðir náttúrulega að fólk hefur verið að stunda kynlíf fyrir giftingu. Því eitthvað verður til þess að boð og bönn verða til.“

Hugmyndin að rannsóknarefninu fæddist á námskeiðinu „Lúsakambar, hlandkoppar og kynlíf“ sem Eiríkur kennir við Þjóðfræðideild Háskóla Íslands. „Nemendur höfðu mikinn áhuga á þessu efni, hvort, hvar og hvernig fólk stundaði kynlíf,“ segir Eiríkur og bætir við að hann hafi rekist á margskonar heimildir um efnið. „Það eru allskonar sögur af þjóðtrú og annað sem tengist kynlífi. Hvernig á að eignast stúlku, hvernig á að eignast strák og hvernig á að koma í veg fyrir að eignast börn.“

Prjónaðir smokkar og hettur

Þar nefnir Eiríkur heimatilbúnar getnaðarvarnir. „Konur voru að prjóna sér einhverskonar getnaðarvarnir úr mýksta þelinu sem þær settu upp í leggöngin til að koma í veg fyrir getnað. Dæmi eru um að karlar hafi fengið prjónaða smokka sem auðvitað virkuðu ekki rassgat eins og gefur að skilja. Menn geta ímyndað sér hversu þægilegt hefur verið að stunda kynlíf með þetta.“

Eiríkur segir fólk í gamla bændasamfélaginu hafi verið líkara okkur en við höldum:„Okkur finnst þetta mjög fyndið en þetta gamla steríla skítuga bændasamfélag sem við höfum búið til ákveðna ímynd í huga okkar um var miklu líkara því samfélagi sem við búum í. Það er búið að búa til einhverja ímynd en auðvitað voru þetta bara manneskjur með tilfinningar og pælingar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×