Erlent

Dýrkeypt innsláttarvilla: 124 ára fyrirtæki á hausinn og 250 misstu vinnuna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ekki bætti úr skák að framkvæmdastjórinn Philip Davison-Sebry var erlendis í fríi þegar málið kom upp. Settu margir spurningamerki við það og töldu hann mögulega hafa flúið land.
Ekki bætti úr skák að framkvæmdastjórinn Philip Davison-Sebry var erlendis í fríi þegar málið kom upp. Settu margir spurningamerki við það og töldu hann mögulega hafa flúið land.
Fyrirtækjaskrá breska ríkisins hefur verið dæmd til að greiða eigendum velsku verkfræðistofunnar Taylor & Sons tæplega níu milljónir punda í skaðabætur, jafnvirði 1,75 milljarða íslenskra króna, fyrir að hafa fyrir mistök úrskurðað fyrirtækið gjaldþrota.

Málið var höfðað í nóvember en kveðinn var upp dómur í vikunni. Forsaga málsins er sú að árið 2009 var fyrirtækið fyrir mistök úrskurðað gjaldþrota. Mistökin lágu í þeirri staðreynd að fyrirtæki með svipað nafn en öðrum bransa, Taylor & Son, gekk illa í rekstri og á barmi gjaldþrots. Stafsetningavilla starfsmanns fyrirtækjaskrárinnar varð til þess að í þrjá daga var rangt fyrirtæki skráð gjaldþrota.

Út spurðist að fyrirtækið, sem hefur starfað í 124 ár og var með rúmlega 250 manns í vinnu, væri gjaldþrota. Ekki bætti úr skák að framkvæmdastjórinn Philip Davison-Sebry var erlendis í fríi þegar málið kom upp. Settu margir spurningamerki við það og töldu hann mögulega hafa flúið land.

Mistökin voru leiðrétt þremur dögum síðar en þá var skaðinn skeður. Fréttir af gjaldþroti fyrirtækisins höfðu farið sem eldur í sinu um internetið. Viðskiptavinir sögðu upp samningum og á augabragði var rekstrargrundvöllur fyrirtækisins að engu orðinn.

Taylor og Sons fóru því í mál til að leita réttar síns. Dómurinn féllst á að mistökin hefðu orðið til þess að kippa fótunum undan rekstri fyrirtækisins. Í dómsorði segir að mistökin hafi orðið til þess að gera að engu yfir hundrað ára gamalt fyrirtæki með góðan rekstur. Hefur fyrirtækinu nú verið dæmdar 1,75 milljarður króna í skaðabætur.

Frétt Guardian um málið má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×