Skoðun

Dýrari bækur – aukinn lestur?

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
Sagt er að í hallærum hér áður fyrr hafi menn notað bækur fyrir brenni og skinnhandrit í skó. Ritað mál varð að víkja fyrir viljanum til að lifa af.

Nú til dags vita allir sem koma nálægt bókaskrifum, útgáfu bóka, bókasöfnum og bóksölu að lestur samfellds texta og almenn bókaeign þverr hægt og bítandi. Haldin eru málþing og umræður í fjölmiðlum um ástæðurnar og auðvitað eru þær margþættar. Einn þátturinn er hátt verð bóka sem stafar að hluta til af því að útgáfukostnaður er hér jafn hár eða hærri og í milljónasamfélögum en markaður afar smár í því samhengi. Þess vegna blasir við ein leið til að ýta undir lestur bóka, hvort sem er prentaðra eða tölvutækra: Að hækka ekki verð bóka heldur lækka það. Af sjálfu leiðir að það mætti gera með því að lækka höfundarhlut í hverri seldri bók, lækka prentkostnað, eignarhlut útgefanda í hverri bók eða álagningu bóksalans og skyndibóksöluverslunarinnar á jólavertíðinni. Þessir aðilar eru þó ekki öfundsverðir með sitt, nema kannski stórmarkaðirnir sem reyndar keyra niður álagningu og heildsöluverð bóka.

Augljósasta leiðin felst samt í að lækka eða afnema virðisaukaskatt á bókum. Ef til vill gæti það aukið menntun fólks, hlúð að nýsköpun, styrkt lýðræðið og hvað eina sem okkur er kynnt í eldhúsdagsumræðum á Alþingi eða í þjóðlegum og bólgnum ræðum ráðherra fyrr og síðar. Nei, í stað þessa augljósa menningarafreks er virðisaukaskattur hækkaður og þar með verð hins ritaða máls. Lækkun eða afnám hans leiddi til tekna hjá ríkinu sem auðvelt er að gera sér í hugarlund vegna aukinnar bóksölu og ótal samfélagslegra atriða og þau kæmu til móts við tekjutapið. Hvernig Færeyingum og Írum tekst að komast hjá virðisaukaskatti á bókum hlýtur að vera mikið leyndarmál. En það er enn lag.

Samhliða endurskoðun á skattlagningu ritaðs máls væri ráð að hætta að tekjuskattsleggja fé sem veitt er sem viðurkenning í menningarstarfseminni. Það er aumt að sjá rithöfund taka við verðlaunum hver áramót hjá RÚV með annarri hendinni en greiða ríkinu ríflega þriðjunginn með hinni, svo dæmi séu nefnd.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×