Skoðun

Dylgjudraugurinn

Ingibjörg Kristjánsdóttir skrifar
Blaðamennska Morgunblaðsins náði nýjum lægðum á miðvikudaginn (30. nóvember) með birtingu fréttar um ákæru embættis ríkissaksóknara á hendur fyrrverandi lögreglumanni og starfsmanni Öryggismiðstöðvarinnar. Blaðinu tekst á afar langsóttan og lágkúrulegan hátt að tengja mann minn Ólaf Ólafsson við þetta mál.

Eftir því sem ég get lesið úr fréttinni, sem skrifuð er af Þorsteini Ásgrímssyni nýjum aðstoðarfréttastjóra mbl.is, snýst málið um að starfsmaður Öryggismiðstöðvarinnar hafi reynt að fá skýrslu um Kaupþing banka, sem var trúnaðarmál, afhenta gegn greiðslu.

Þorsteinn upplýsir að eigendur Öryggismiðstöðvarinnar séu helstu stjórnendur félagsins með 40% og að 60% séu í eigu Hjörleifs Jakobssonar. Síðan eyðir Þorsteinn töluverðu púðri í að tengja þá Ólaf og Hjörleif viðskiptaböndum og dregur upp tengsl Ólafs við Kaupþing og Al Thani málið. Niðurstöðuna lætur hann lesendum eftir að finna út úr og er nokkuð augljóst að hún á að vera sú að Ólafur hljóti að vera á bak við verknaðinn.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið í dag þá kemur fram í vitnaskýrslum, sem teknar voru af einstaklingum er tengjast málinu, að sá sem reyndi að kaupa þessi gögn er breskur kaupsýslumaður sem hefur engin tengsl við Ólaf.

Þá hefur Ólafur engin tengsl við Öryggismiðstöðina og er ekki aðili að þessu sakamáli, hvorki sem vitni né sakborningur. Ef áhugi var fyrir hendi þá hefði Þorsteinn getað leitað upplýsinga um þetta einfaldlega með því að tala við hlutaðeigandi aðila. En sá áhugi var greinilega ekki fyrir hendi hjá blaðamanni, því þar með hefði tilgangurinn, sem var að bendla Ólaf við málið, verið fyrir bí.

Aðferðafræði blaðamannsins er vel þekkt. Hann gætir þess að segja aldrei með berum orðum að Ólafur Ólafsson standi á bak við málið. Hann gætir þess að allt sem hann skrifar er varðar Ólaf sé fræðilega rétt. Hins vegar er alveg ljóst hvaða skilning hann vill að lesandinn leggi í samsuðuna. Þetta kallast dylgjur sem ég taldi að Morgunblaðið viðhefði ekki í sínum fréttaflutningi.

Svar ritstjóra blaðsins vegna innsendrar athugasemdar við fréttina, er að blaðið „standi við fréttina“. Standi við hvað? Dylgjurnar, aðdróttanirnar og slúðrið?

Svona blaðamennska dæmir sig sjálf og sýnir hversu lágt blaðamaður og ritstjóri eru tilbúnir að leggjast í þeim tilgangi að leggja stein í götu manna sem sitja varnarlausir undir ávirðingunum. Mikil er þeirra skömm.




Skoðun

Sjá meira


×