Enski boltinn

Dyke ekki bjartsýnn á breytingar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Greg Dyke er harður andstæðingur Sepps Blatter.
Greg Dyke er harður andstæðingur Sepps Blatter. Vísir/Getty
Greg Dyke, formaður enska knattspyrnusambandsins, segir að England muni ekki bjóða sig fram til að halda heimsmeistaramót fyrr en breytingar hafa orðið á umsóknarferlinu og forystu FIFA. England bauð sig fram til halda HM 2018, en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir tilboði Rússa.

Dyke er lítt hrifinn af Sepp Blatter, hinum umdeilda forseta FIFA, og hefur lagst opinberlega gegn því að Svisslendingurinn verði endurkjörinn sem forseti, en Blatter hefur gegnt embættinu frá árinu 1998. Næstu forsetakosningar FIFA fara fram í maí 2015.

Dyke er þó ekki bjartsýnn á að breytingar verði á forystu FIFA.

"Mörg knattspyrnusambönd í Evrópu hafa lýst því yfir að þau styðji ekki Blatter, en ég er hræddur um að hann njóti of mikils stuðnings á heimsvísu.

"Ef hann býður sig fram verður hann kosinn," sagði Dyke sem tók við sem formaður enska knattspyrnusambandsins af David Bernstein fyrir ári síðan. Dyke var stjórnarformaður Brentford á árunum 2006-2013 og þar áður gegndi hann stöðu útvarpsstjóra hjá breska ríkisútvarpinu, BBC.

Dyke vakti athygli fyrr á þessu ári þegar hann sagði að enska landsliðið ætti ekki möguleika á að vinna HM 2014. Hann sagði ennfremur að England ætti að einbeita sér að því að komast í undanúrslit í Rússlandi 2018 og að vinna HM í Katar 2022.


Tengdar fréttir

"Ekki hægt að halda HM í Katar að sumri til“

Greg Dyke, formaður enska knattspyrnusambandsins, segist harður stuðningsmaður þess að halda þurfi heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2022 utan Katar eða utan sumartímans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×