Erlent

Duterte segir mögulegt að lýsa yfir herlögum

Samúel Karl Ólason skrifar
Rodrigo Duterte.
Rodrigo Duterte. V'isir/EPA
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, segir mögulegt að hann muni lýsa yfir herlögum í landinu. Það gæti hann gert ef „fíkniefnavandinn“ þar í landi reynist langvarandi. Einungis mánuður er síðan forsetinn sagði fregnir af slíkum aðgerðum vera „þvætting“. Barátta gegn fíkniefnum hefur verið helsta stoð ríkisstjórnar Duterte frá því hann tók við völdum í júlí í fyrra.

Síðan þá hafa minnst sex þúsund meintir fíkniefnaneytendur og salar látið lífið í „stríðinu“ gegn fíkniefnum. Þar af hafa margir verið skotnir af lögreglu, en bróðurparturinn var myrtur af vopnuðum gengjum sjálfskipaðra löggæslumanna.

Rúm milljón af fíkniefnaneytendum og sölum hafa verið handteknir eða gefið sig fram til lögreglu.

Duterte lýsti því yfir í borginni Davao að hann myndi mögulega lýsa yfir herlögum, en herlög voru á í Filippseyjum í um tíu ár á árum áður.

„Enginn getur stöðvað mig,“ sagði Duterte og vísaði hann þar til þingsins og hæstaréttar landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×