Körfubolti

Dustin kvaddi Njarðvík með stórleik í stórsigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dustin Salisbery.
Dustin Salisbery. Visir/Valli
Dustin Salisbery lék sinn síðasta leik með Njarðvíkingum í kvöld þegar þeir unnu 28 stiga stórsigur á Þór úr Þorlákshöfn, 96-68, í Dominos-deild karla í kvöld en þetta var lokaleikur liðanna fyrir jólafrí.

Njarðvíkingar hafa sagt upp samningi sínum við Dustin Salisbery en hann var engu að síður tilbúinn að spila tvo síðustu leiki liðsins fyrir jólafrí. Njarðvík og Dustin Salisbery skilja í góðu en hann ætlaði greinilega að stimpla sig út með stæl.

Dustin Salisbery sýndi svo sannarlega styrk sinn í leiknum í kvöld en þessi öflugi skotmaður var með 44 stig og 13 fráköst í síðasta leik sínum í Njarðvíkurtreyjunni.

Dustin Salisbery var langstigahæstur í Njarðvíkurliðinu en næstur honum kom Logi Gunnarsson með 21 stig og þá skoraði Ágúst Orrason 12 stig. Grétar Ingi Erlendsson var stigahæstur hjá Þór með 18 stig en Emil Karel Einarsson skoraði 14 stig.

Njarðvíkurliðið vann fyrsta leikhlutann 23-15 og og var fimmtán stigum yfir í hálfleik, 45-30. Dustin Salisbery var kominn með 14 stig í hálfleik. Njarðvíkingar enduðu á því að vinna alla leikhlutana og leikinn að lokum með 28 stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×