Körfubolti

Durant og Westbrook reyndu að fá Gasol til Thunder

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pau Gasol.
Pau Gasol. Vísir/Getty
Spænski miðherjinn Pau Gasol er einn af eftirsóttari NBA-leikmönnum sem eru á markaðnum þessa dagana en þessi reynslumikli og sigursæli leikmaður er búinn með samning sinn hjá Los Angeles Lakers.

Mörg félög í NBA-deildinni í körfubolta vilja semja við kappann og er Los Angeles Lakers í þeim hópi. Það hefur heyrst af miklum áhuga liða eins og Miami Heat og New York Knicks en ESPN birti síðan frétt um það að stórstjörnur eins besta liðs deildarinnar hafi reynt að sannfæra Gasol um að semja við sitt lið.

Kevin Durant og Russell Westbrook hittu Pau Gasol í Los Angeles og reyndu að selja Spánverjanum það að semja við Oklahoma City Thunder fyrir næsta tímabil en þá þurfti hann að sætta sig við að fá mun minni pening.

Pau Gasol er á lokasprettinum á sínum ferli og þótt að Lakers geti boðið honum meiri pening en önnur félög þá er allt eins víst að hann vilji fara til liðs sem á meiri möguleika á því að berjast um titilinn.

Chicago Bull er annað lið sem gæti orðið mjög öflugt með Pau Gasol innanborðs og forráðamenn Bulls skelltu sér einnig til Los Angeles til að hitta Gasol.

Það efast samt enginn um það að Paul Gasol myndi gera frábært lið Oklahoma City Thunder enn betri færi hann þangað enda frábær miðherji sem ætti að geta nýtt sér vel ógnunina sem er frá þeim Kevin Durant og Russell Westbrook.

Eitt er víst að Pau Gasol hefur úr mörgum tilboðum að velja þegar hann ákveður hvar hann ætlar að spila á næsta tímabili.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×