Fótbolti

Dunga tekur við Brasilíu á ný

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dunga á blaðamannafundi þar sem tilkynnt var um ráðningu hans.
Dunga á blaðamannafundi þar sem tilkynnt var um ráðningu hans. Vísir/Getty
Dunga hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Brasilíu. Hann tekur við af Luiz Felipe Scolari sem hætti eftir HM fyrr í sumar, þar sem Brasilía endaði í fjórða sæti eftir að hafa tapað tveimur síðustu leikjum sínum 10-1 samanlagt.

Það má segja að Dunga sé kominn á kunnuglegar slóðir en hann stýrði Brasilíu á árunum 2006-2010.

Undir hans stjórn vann Brasilía S-Ameríkukeppnina árið 2007 og Álfukeppnina tveimur árum síðar. Hann stýrði einnig liði Brasilíu sem vann til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking 2008.

Dunga var leystur undan störfum eftir að Brasilía tapaði fyrir Hollandi í átta-liða úrslitum á HM 2010 í Suður-Afríku.

Dunga, sem lék á sínum tíma 91 landsleik fyrir Brasilíu, sagðist hæstánægður að vera kominn aftur í gamla starfið sitt:

"Ég er ótrúlega ánægður að vera kominn aftur," sagði Dunga á blaðamannafundi í dag, en hans bíður erfitt verkefni að reisa brasilíska liðið við eftir stórtapið gegn Þjóðverjum í undanúrslitum HM í sumar.

"Ég hef áður verið í þessu starfi. Ég var beðinn um að bjarga heiðri brasilíska landsliðsins og ná árangri.

"Þetta er annað sinn sem ég tek við liðinu og mér er ætlað að undirbúa liðið fyrir HM 2018," sagði Dunga sem var fyrirliði Brasilíu þegar liðið varð heimsmeistari 1994 í Bandaríkjunum.




Tengdar fréttir

Brasilíumenn kvöddu Suður-Afríku með tárum

Brasilíumenn voru slegnir eftir tapið gegn Hollandi í gær. Brassar sýndu frábæra takta í fyrri hálfleik og spiluðu sem heimsmeistarar væru. Sýndu sambatakta og voru óheppnir að skora ekki meira en eitt mark í fyrri hálfleiknum. Robinho kom þeim yfir eftir aðeins tíu mínútna leik.

Búið að reka Dunga

Brasilíska knattspyrnusambandið sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem að fram kemur að landsliðsþjálfarinn Dunga og allt hans þjálfaralið hafa verið látið fara.

Juninho: Dunga er eins og Domenech

Brasilíski miðjumaðurinn Juninho Pernambucano, leikmaður Lyon og fyrrum landsliðsinsmaður, gagnrýnir Dunga harðlega eftir HM. Hann ber hann saman við Raymond Domenech, hinn óvinsæla þjálfara Frakka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×