Körfubolti

Duke fór illa með Kristófer og félaga í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristófer Acox í leiknum í nótt.
Kristófer Acox í leiknum í nótt. Vísir/Getty
Kristófer Acox var frákastahæstur og með flesta stolna bolta hjá Furman þegar liðið steinlá á móti Duke í nótt í bandaríska háskólaboltanum en leikurinn fór fram í hinni þekktu höll Cameron Indoor Stadium í Durham í Norður-Karólínufylki.

9314 manns mættu á leikinn og fylltu höllina en þeir gerast varla erfiðri útileikirnir en þegar liðin heimsækja Duke-háskólaliðið sem er undir stjórn hins virta Mike Krzyzewski.

Furman tapaði leiknum með 39 stig mun, 94-54, en Duke-liðið var komið með 28 stiga forskot í hálfleik, 50-22, og hefur nú unnið alla sex leiki sína á tímabilinu.

Kristófer Acox tók 5 fráköst, stal 2 boltum og skoraði 2 stig á 35 mínútum en hann hitti úr 1 af 2 skotum sínum. Kristófer spilaði mest hjá Furman-liðinu í leiknum.

Miðherjinn Jahlil Okafor, sem er einn besti leikmaður háskólaboltans þótt að hann sé á fyrsta ári, var með 24 stig á 26 mínútum í leiknum en hann hitti meðal annars úr 12 af 14 skotum sínum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×