Innlent

Drop-in brúðkaup og skírn án endurgjalds

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
"Þetta eru í raun svolítil mótmæli hjá mér. Fyrir hrun gátu brúðkaup jafnvel kostað meira en milljón krónur. Ég það á tilfinningunni að þetta sé að fara í það far aftur,“ segir séra Þórhallur Heimisson, sóknarprestur í Breiðholtskirkju.
"Þetta eru í raun svolítil mótmæli hjá mér. Fyrir hrun gátu brúðkaup jafnvel kostað meira en milljón krónur. Ég það á tilfinningunni að þetta sé að fara í það far aftur,“ segir séra Þórhallur Heimisson, sóknarprestur í Breiðholtskirkju.
„Ég vaknaði nú ekki með þessa hugmynd. Þetta er orðið mjög algengt í Svíþjóð og við buðum upp á þetta í söfnuðinum í Falun þar sem ég starfaði. Þar notfærir sér fjölmenni boðið.“

Þetta segir séra Þórhallur Heimisson, sóknarprestur í Breiðholtskirkju, um þá ákvörðun að bjóða upp á svokallaðan „drop-in“ skírnardag og brúðkaupsdag í kirkjunni. Þangað verður hægt að koma til skírnar, sjálfur eða með barn, laugardaginn 28. maí án endurgjalds og til hjónavígslu án endurgjalds laugardaginn 11. júní. Boðið verður upp á alla athöfnina með söng og undirleik.

Í raun er um að ræða hálfgildings drop-in athafnir þar sem fólk þarf að hafa útvegað sér tilskilin vottorð áður. „Þess vegna byrjaði ég snemma að segja frá þessu. Þeir sem ætla að láta gefa sig saman þurfa að útvega sér hjúskaparstöðuvottorð sem getur tekið nokkrar vikur. Sé skírnarbarn yngra en 16 ára þarf skriflegt samþykki beggja ábyrgðarmanna barns. Auk þess þurfa foreldrar að koma með fæðingarvottorð. Það er hægt að útvega samdægurs,“ segir Þórhallur og bætir því við að tilvonandi brúðhjón þurfi að tilkynna um komu sína. Þau verði svo látin vita í vikunni fyrir brúðkaupið hvenær þeirra athöfn fari fram að deginum til þess að ekki verði biðröð.

Gert er ráð fyrir að athafnirnar verði frá klukkan eitt eftir hádegi og til fjögur báða dagana.

„Það er hægt að gefa saman sex pör á þessum tíma og nú þegar hafa fjögur pör boðað komu sína,“ greinir Þórhallur frá.

Hann kveðst hins vegar reiðubúinn að gefa saman fólk fram á kvöld. „Við framlengjum ef með þarf. Tónlistarfólkið ætlar að skipta deginum á milli sín.“

Þórhallur vísar á bug gagnrýni um að kirkjan sé orðin örvæntingarfull vegna færri kirkjugesta og bjóði þess vegna ókeypis athafnir. „Þvert á móti. Það er verið að skíra og gifta í kirkjum úti um allt land í sumar. Þetta eru í raun svolítil mótmæli hjá mér. Fyrir hrun gátu brúðkaup jafnvel kostað meira en milljón krónur. Ég hef það á tilfinningunni að þetta sé að fara í það far aftur og með því að bjóða upp á ókeypis athafnir í kirkjunni er ég að benda á að tilstandið þurfi alls ekki að vera mikið.“



Greinin birtist í Fréttablaðinu 23.maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×